Starfsreglur stjórnar frá 22. mars 2012 má einnig nálgast hér

1. gr.  Skipan stjórnar

1.1          Stjórn Framtakssjóðs Íslands slhf., hér eftir nefnt félagið, skipa sjö aðalmenn og fjórir til vara, sem kosnir eru á aðalfundi til eins árs í senn. Hluti stjórnar skal vera óháður félaginu og hluthöfum þess.   Þá skipar stjórnin að tilnefningu eigenda Framtakssjóðsins 18 menn í sérstakt ráðgjafaráð sem er umsagnaraðili um fjárfestingastefnu sem stjórnin setur, hugmyndir um umtalsverðar breytingar á starfsemi sjóðsins og fjallar um mál sem skapað gætu hagsmunaárekstra milli sjóðsins og eigenda hans.

1.2          Stjórnarmenn skulu leggja neðangreindar upplýsingar um persónulega hagi sína fyrir stjórn félagsins til að auðvelda mat stjórnar á óhæði þeirra sem og ef breytingar verða á högum þeirra er geta haft áhrif á það mat:

–        Nafn, fæðingardag og heimilisfang.

–        Menntun, aðalstarf og starfsferill.

–        Hvenær stjórnarmaður var fyrst kosinn til setu í stjórn félagsins.

–        Önnur trúnaðarstörf nú, t.a.m. stjórnarseta í öðrum félögum.

–        Hagsmunatengsl stjórnarmanns við helstu viðskipta- og samkeppnisaðila félagsins svo og stóra hluthafa í félaginu.

Félaginu skal vera heimilt að veita og / eða birta þessar upplýsingar opinberlega.

2. gr.  Skipting starfa innan stjórnar

2.1          Stjórn skal strax að loknum aðalfundi þegar stjórnarkjör fer fram koma saman til fundar, þar sem stjórnin skiptir með sér verkum. Aldursforseti stjórnar stýrir fundi stjórnar þar til stjórnin hefur kosið sér formann, en þá tekur nýkjörinn formaður við stjórn fundarins. Skal úr hópi stjórnarmanna kosinn formaður og varaformaður. Jafnframt skal á fyrsta fundi ákveðið hver skuli rita fundargerðir stjórnar. Geti formaður og/eða varaformaður ekki sinnt starfsskyldum sínum sökum forfalla skal stjórn tilnefna annan í hans stað.

2.2          Formaður stjórnar ber meginábyrgð á starfsemi stjórnar og skal stuðla að virkni í allri ákvarðanatöku hennar. Að auki skal formaður stjórnar m.a:

–        Tryggja að nýir stjórnarmenn fái upplýsingar og leiðsögn í starfsháttum stjórnarinnar, málefnum félagsins og helstu þáttum er varða stjórn þess.

–        Tryggja að stjórnin fái í störfum sínum nákvæmar og skýrar upplýsingar og gögn til að stjórnin geti sinnt störfum sínum.

–        Bera ábyrgð á samskiptum stjórnar við hluthafa félagsins.

–        Vera auk framkvæmdastjóra helsti talsmaður félagsins í fjölmiðlum og gagnvart stjórnvöldum sbr. 6. gr.

–        Hvetja til opinna samskipta innan stjórnar svo og milli ráðgjafarráðsins, stjórnar og stjórnenda félagsins.

–        Semja dagskrá stjórnarfunda, í samstarfi við framkvæmdastjóra, sjá um boðun þeirra og stjórnun.

–        Fylgjast með framvindu ákvarðana stjórnarinnar innan félagsins og staðfesta innleiðingu þeirra gagnvart stjórn.

–        Tryggja að stjórnin meti árlega störf sín, framkvæmdastjóra og undirnefnda, hafi þær verið stofnaðar.

–        Taka frumkvæði að endurskoðun starfsreglna þessara.

Formaður stjórnar skal ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem formaður, að undanskildum einstökum verkefnum sem stjórnin felur honum að vinna fyrir sig.

2.3          Stjórnarmenn skulu kynna sér lög og reglur er gilda um rekstur samlagshlutafélaga og starfsemi félagsins og hafa skilning á hlutverki og ábyrgð sinni svo og stjórnar. Að öðru leyti skulu stjórnarmenn:

–        Taka sjálfstæðar ákvarðanir í hverju máli fyrir sig.

–        Hafa skilning á markmiðum og verkefnum félagsins, hvernig þeir eigi að haga störfum sínum til að stuðla að því að markmið þess náist.

–        Óska eftir og kynna sér öll gögn og upplýsingar sem þeir telja sig þurfa til að hafa fullan skilning á rekstri félagsins og til að taka upplýstar ákvarðanir.

–        Tryggja að til staðar sé innra eftirlit og að ákvörðunum stjórnar sé framfylgt svo og að jafnan sé gætt að lögum og reglum í rekstri félagsins.

–        Stuðla að góðum starfsanda innan stjórnar.

–        Koma í veg fyrir að málefni þeirra, hvort heldur persónuleg eða viðskiptatengd, leiði til beinna eða óbeinna hagsmunaárekstra milli þeirra og félagsins.

–        Halda trúnað um þau mál sem eru rædd og tekin til ákvörðunar á stjórnarfundum og ræða ekki málefni félagsins í fjölmiðlum nema í samráði við formann stjórnar eða þá varaformann í forföllum formanns.

2.6       Stjórnarmenn geta hvenær sem er sagt starfa sínum lausum að undangenginni skriflegri tilkynningu til stjórnar félagsins.

3. gr.  Verksvið stjórnar

3.1          Stjórn fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli hluthafafunda og ber meginábyrgð á rekstri þess. Hluthafar hafa sett félaginu skilmála sem skilgreina hlutverk félagsins og tilgang.  Stjórn skal setja félaginu markmið í samræmi við tilgang þess og móta stefnu þess í samstarfi við framkvæmdastjóra.

3.2          Stjórn skal fylgja leiðbeiningum um góða stjórnarhætti fyrirtæka Hér er einkum vísað til reglna OECD um stjórnarhætti fyrirtækja og reglna Viðskiptaráðs Íslands, Kauphallar Íslands og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja. Þá mun einnig verða horft til leiðbeininga um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja sem gefin hafa verið út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq OMX Ísland og Samtökum atvinnulífsins.

3.3          Stjórn fylgist með að framkvæmdastjóri framfylgi stefnu í samræmi við hlutverk og markmið félagsins. Stjórnin skal annast um að skipulag félagsins og starfsemi sé jafnan til þess fallið að koma stefnu félagsins í framkvæmd svo og að hagsmuna allra hluthafa sé ávallt gætt jafnt.

3.4          Stjórn skal tryggja að nægilegt eftirlit sé haft með reikningshaldi og meðferð fjármuna félagsins og skal a.m.k. árlega staðfesta rekstrar- og fjárhagsáætlanir. Skal stjórn fylgjast með því að rekstrar- og fjárhagsáætlun sé fylgt, taka afstöðu til skýrslna um greiðslugetu félagsins, meiri háttar ráðstafanir, þær tryggingar sem skipta máli, fjármögnun, peningastreymi og sérstaka áhættuþætti.  Skal stjórn koma á virku og skjalfestu kerfi innra eftirlits til að sinna þessu hlutverki sínu og framkvæma með reglubundnum hætti úttekt á því kerfi í samráði við endurskoðunarnefnd félagsins, hafi hún verið stofnuð.

3.5          Meirihluti stjórnar ritar firma félagsins og einungis stjórn getur veitt prókúruumboð.

3.6          Stjórn ræður einn framkvæmdastjóra að félaginu, gengur frá starfslýsingu hans, setur honum erindisbréf og veitir honum lausn. Framkvæmdastjóri ræður aðra starfsmenn.  Stjórnin hefur eftirlit með störfum framkvæmdastjóra og fer ásamt honum með stjórn félagsins.   Skal framkvæmdastjóri hafa samráð við stjórn um fjölda starfsmanna, svo og um ráðningu staðgengils síns í starfi.

3.7          Gerður skal skriflegur ráðningarsamningur við framkvæmdastjóra þar sem m.a. skal kveðið á um laun hans og önnur starfskjör. Stjórn getur falið formanni að annast gerð samnings við framkvæmdastjóra.

3.6          Stjórn tekur ákvarðanir í öllum málum sem telja verður óvenjuleg eða mikilsháttar. Komi upp mál sem krefjast tafarlausrar úrlausnar getur framkvæmdastjóri afgreitt slík mál ef ekki er unnt að leita til stjórnar í tíma án verulegs tjóns fyrir starfsemi félagsins. Í þeim tilvikum skal framkvæmdastjóri tafarlaust tilkynna formanni stjórnar um afgreiðslu málsins.

3.7          Stjórn getur í sérstökum tilvikum falið einstökum stjórnarmönnum, einum eða fleirum, tiltekin mál til athugunar og undirbúnings afgreiðslu á stjórnarfundi.

3.8          Stjórn tekur ákvörðun um hverjir setjast í stjórnir í dóttur- og hlutdeildarfélögum félagsins, sem og öðrum félögum. Almennt skulu stjórnarmenn FSÍ ekki sitja í stjórnum dóttur- eða hlutadeildarfélaga. Þyki það nauðsynlegt skal fjalla sérstaklega um ástæður þess að stjórnarmaður taki slíkt sæti og áhrif stjórnarsetunnar á félagið og eftirlitshlutverk viðkomandi stjórnarmanns. Stjórnarmaður sem tekið hefur sæti í stjórn félags sem Framtakssjóðurinn hefur fjárfest í tekur ekki þátt í ákvörðun um sölu eignarhlutarins.

3.9          Stjórn skal meta með reglubundnum hætti störf sín, verklag og starfshætti, framgang félagsins, frammistöðu framkvæmdastjóra svo og skilvirkni undirnefnda, með aðstoð utanaðkomandi aðila eftir því sem við á. Slíkt árangursmat felur m.a. í sér að stjórnin leggi mat á styrkleika og veikleika í störfum sínum og verklagi og hugi að þeim hlutum sem hún telur að betur megi fara. Stjórn skal hittst a.m.k. árlega án framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna.

4. gr. Framkvæmdastjóri

4.1          Framkvæmdastjóri skal annast daglegan rekstur félagsins og í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórn gefur. Framkvæmdastjóri getur komið fram fyrir hönd félagsins í þeim málum sem eru innan verksviðs hans samkvæmt starfslýsingu og skv. samkomulagi við formann stjórnar. Framkvæmdastjóri getur ekki gert ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar, svo sem að kaupa, selja eða veðsetja eignir félagsins, taka eignir á leigu eða segja upp leigusamningi, nema samkvæmt heimild frá stjórn. Stjórn kann að setja almennar reglur til viðmiðunar um fjárfestingar og innlausn fjár sem tilheyra aðalstarfsemi félagsins.

4.2          Framkvæmdastjóri skal sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. Framkvæmdastjóri skal koma á framfæri við endurskoðanda þeim upplýsingum og gögnum sem hafa þýðingu vegna endurskoðunar og veita endurskoðanda þær upplýsingar, gögn, aðstöðu og aðstoð sem endurskoðandi telur nauðsynlega vegna starfs síns.

4.3          Framkvæmdastjóri skal ávallt starfa af heilindum með hagsmuni félagsins að leiðarljósi og skal hann bera önnur verkefni sín, sem ótengd eru félaginu, undir stjórn til umfjöllunar. Þá skal framkvæmdastjóri jafnframt láta stjórn í té slíkar upplýsingar um sig sem nefndar eru í 1.2 gr.

4.4          Framkvæmdastjóri skal ekki eiga sæti í stjórnum annarra fyrirtækja nema með sérstöku leyfi stjórnar. Við þá ákvörðun skal fjalla um ástæður þess að framkvæmdastjóri taki slíkt sæti og áhrif stjórnarsetunnar á félagið.

4.5          Skal framkvæmdastjóri gæta þess að fara í engu út fyrir þann ramma sem afmarkaður er í rekstrar- og fjárhagsáætlun félagsins fyrir hvert reikningsár.

5. gr.  Undirnefndir stjórnar

5.1.     Stjórn getur ákveðið að skipa endurskoðunarnefnd til að fjalla nánar um fjárhag félagsins og fyrirkomulag upplýsingagjafar frá stjórnendum og ganga þannig úr skugga um að þær upplýsingar sem stjórn fær um rekstur, hag og framtíðarhorfur gefi sem gleggsta mynd af stöðu félagsins á hverjum tíma.

5.2.     Um skipan, hlutverk og skyldur starfskjaranefndar og endurskoðunarnefndar, verði til þeirra stofnað, skal fara skv. fyrrgreindum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sbr. 3.2. Um ákvörðunarvald og atkvæðagreiðslur innan nefndanna skal fara skv. 8. gr. starfsreglna þessara. Nefndirnar skulu setja sér starfsreglur þar sem kveðið skal nánar á um hlutverk þeirra og helstu verkefni.

6. gr.  Fyrirsvar stjórnar

6.1          Formaður stjórnar er málsvari hennar og kemur fram fyrir hennar hönd varðandi málefni félagsins, nema stjórn ákveði annað. Einnig kemur formaður fram út á við fyrir hönd félagsins, ásamt framkvæmdastjóra, í samræmi við hefðir innan félagsins og eðli máls.

6.2          Öll samskipti við stjórnvöld og eigendur félagsins skulu vera í samráði við formann stjórnar.

6.3          Formaður stjórnar kemur fram fyrir hönd stjórnar gagnvart framkvæmdastjóra.

7. gr.  Boðun funda o.fl.

7.1          Stjórnarfundir skulu að jafnaði haldnir mánaðarlega nema í júlímánuði, eða þegar formaður ákveður. Aukafundir skulu haldnir eftir þörfum. Fundir skulu haldnir á skrifstofu félagsins. Í sérstökum tilvikum má halda fundi annars staðar telji formaður efni fundarins eða aðrar aðstæður gefa tilefni til. Heimilt er að stjórnarmenn taki þátt í stjórnarstörfum símleiðis.

7.2          Á reglulegum stjórnarfundum skal taka fyrir eftirfarandi mál:

–         Fundargerð síðasta fundar.

–        Skýrslu framkvæmdastjóra um starfsemi félagsins, sbr. 12.1. gr.

Í lok hvers fundar skal að jafnaði tekin ákvörðun um hvenær næsti fundur skuli haldinn.

7.3          Formanni ber að kalla saman fund ef tveir stjórnarmenn, framkvæmdastjóri eða endurskoðandi krefst þess.

7.4          Framkvæmdastjóri á sæti á fundum stjórnar og hefur þar umræðu- og tillögurétt, nema stjórn ákveði annað í einstökum tilvikum.

7.5          Til fundar skal boða með minnst 7 daga fyrirvara. Formaður stjórnar getur þó ákveðið skemmri frest, sérstaklega varðandi aukafundi, telji hann það óhjákvæmilegt vegna sérstakra aðstæða. Boða skal varamann á fund tilkynni aðalmaður um forföll.  Varamenn skal boða í þeirri röð sem þeir eru tilnefndir á aðalfundi.

7.6          Fundarboð skal að jafnaði vera skriflegt eða í tölvupósti og skal í því greina dagskrá fundarins. Skrifleg fundargögn um einstök málefni á dagskrá skulu gerð stjórnarmönnum aðgengileg minnst 2 dögum fyrir fundinn í rafrænu gagnaherbergi félagsins, nema formaður ákveðið annað. Formaður getur ákveðið að skriflegum fundargögnum verði fyrst dreift á fundi og þeim skilað í lok fundarins. Öll gögn sem liggja til grundvallar ákvörðunum á stjórnarfundi skulu aðgengileg í rafrænu gagnaherbergi félagsins.

7.7          Nú telur formaður ekki stætt á því vegna sérstakra aðstæðna að bíða þess að haldinn verði stjórnarfundur og getur hann þá tekið ákvörðun um símafund stjórnar eða að málefnið verði kynnt stjórnarmönnum skriflega eða símleiðis og haldin verði atkvæðagreiðsla meðal stjórnarmanna skriflega eða símleiðis. Ákvarðanir sem þannig eru teknar skulu lagðar fyrir næsta fund til staðfestingar og færðar til bókar.

7.8          Stjórn skal fjalla með reglubundnum hætti um málefni þau sem lög og reglur krefjast, s.s. innra eftirlit félagsins, reikningsskil og endurskoðun. Endurskoðendur, framkvæmdastjóri og nefndarmenn endurskoðunarnefndar félagsins, hafi hún verið stofnuð, skulu boðaðir á viðeigandi fundi. Þá skal boða endurskoðanda á stjórnarfund ef a.m.k. einn stjórnarmaður fer þess á leit.

7.9          Stjórn skal leitast við að eiga reglulegar umræður um hvernig stjórnin hyggst haga störfum sínum, hvar áherslur skulu liggja, hvaða samskipta- og verklagsreglur skulu hafðar í heiðri og hver helstu markmiðin með starfi stjórnar eru. Sjá nánar grein 3.9.

8. gr.  Ákvörðunarvald, atkvæðagreiðslur o.fl.

8.1          Stjórn er ákvörðunarbær þegar meirihluti stjórnarmanna sækir fund enda hafi fundurinn verið boðaður í samræmi við gr. 7.5 og 7.6. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á því að fjalla um málið sé þess kostur.

8.2          Formaður stjórnar stýrir fundum.

8.3          Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum í öllum málum.  Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum.

8.4          Stjórnarmenn er einungis bundnir af sannfæringu sinni, en ekki fyrirmælum þeirra sem hafa kosið þá.

8.5          Mál skulu almennt ekki borinn upp til ákvörðunar á stjórnarfundum nema því aðeins að stjórnarmenn hafi fengið gögn málsins eða fullnægjandi upplýsingar um það fyrir fundinn og haft tíma til að kynna sér efni þess.

8.6          Mál til ákvörðunar skulu almennt lögð fyrir stjórn skriflega, studd gögnum og talnaefni. Séu mál lögð fram á stjórnarfundi til kynningar getur slík kynning verið munnleg.

8.7          Fara skal með allar umræður og ákvarðanir stjórnar sem trúnaðarmál í hópi stjórnarmanna og starfsmanna og ekki skal opinberlega eða á ráðgjafaráðsfundum greina frá sjónarmiðum einstakra stjórnarmanna eða niðurstöðu í kosningu um einstök mál, nema stjórnin ákveði annað.

9. gr.  Fundargerðir og fundargerðarbók

9.1          Formaður stjórnar skal sjá til þess að gerð sé fundargerð um það sem gerist á stjórnarfundum og um ákvarðanir stjórnar.

9.2          Í fundargerðarbók skal skrá eftirfarandi:

–        Hvar og hvenær fundurinn er haldinn.

–        Hverjir sitja fundinn og hver stýri honum.

–        Dagskrá fundarins.

–        Hvaða ákvarðanir hafa verið teknar.

–        Hvenær og hvar næsti stjórnarfundur verður haldinn.

–        Hver ritað hafi fundargerðina.

–        Gögn sem dreift er til stjórnarmanna skulu talin upp.

9.3          Stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri, sem ekki eru sammála ákvörðun stjórnar, eiga rétt á að fá sérálit sitt skráð í fundargerð.

9.4          Fundargerð skal rituð af fundarritara. Hann sendir drög að fundargerðinni til stjórnarformanns til yfirlestrar og samþykktar innan þriggja sólarhringa frá lokum fundarins. Fundargerðin skal síðan send stjórnarmönnum innan fimm sólarhringa frá stjórnarfundi. Hafi stjórnarmenn athugasemdir við drögin skulu þeir gera fundarritara og stjórnarformanni viðvart sem fyrst. Endanleg fundargerð skal síðan send með fundargögnum næsta stjórnarfundar. Í upphafi næsta fundar skal gera grein fyrir þeim breytingum sem hún kann að hafa tekið frá því hún var send út. Fundargerðin skal að lokum borin upp til samþykktar og skulu fundarmenn staðfesta hana með undirskrift sinni.

9.5          Fundargerð skal undirrituð af þeim er fund sitja. Fundargerðir teljast full sönnun þess sem gerst hefur á stjórnarfundum. Stjórnarmenn sem ekki voru viðstaddir þann stjórnarfund sem fundargerð tekur til skulu staðfesta að þeir hafi kynnt sér fundargerðina með undirritun sinni.  Afrit af undirritaðri fundargerð skal leggja fram í rafrænu gagnaherbergi.

10. gr.  Þagnar- og trúnaðarskylda

10.1       Á stjórnarmönnum hvílir þagnarskylda um málefni félagsins og félaga sem fjárfest er í, hagi starfsmanna og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu sem stjórnarmenn og leynt skulu fara samkvæmt samþykktum félagsins, lögum eða eðli máls, nema um sé að ræða málefni sem stjórn ákveður að gera opinber eða slíkt leiðir af ákvæðum hlutafélagalaga eða samþykktum félagsins. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

10.2       Ef stjórnarmaður brýtur gegn þagnarskyldu eða rýfur að öðru leyti trúnað sem honum er sýndur, skal formaður veita honum áminningu og boða til hluthafafundar sem ákveður hvort kjósa skuli nýjan stjórnarmann, sé brot alvarlegt eða ítrekað.

10.3       Stjórnarmaður skal varðveita öll gögn með tryggum hætti sem hann fær afhent til að gegna starfa sínum sem stjórnarmaður.

10.4       Stjórnarmenn, aðrir en formaður, skulu almennt ekki tjá sig við fjölmiðla eða snúa sér til almennings varðandi málefni félagsins, nema að fengnu samþykki formanns.  Varaformaður er staðgengill formanns í fjarveru hans.

11. gr.  Vanhæfi

11.1       Stjórnarmaður og/eða framkvæmdastjóri mega ekki taka þátt í samningsgerð milli félagsins og þeirra, um málshöfðun gegn þeim eða um samningsgerð milli félagsins og þriðja manns eða málshöfðun gegn þriðja manni ef þeir hafa þar verulegra hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni félagsins. Skylt er stjórnarmanni og framkvæmdastjóra að upplýsa án tafar um slík atvik og önnur er gætu valdið vanhæfi hans. Stjórn ákveður hvort stjórnarmenn, einn eða fleiri, teljast vanhæfir til meðferðar máls.

11.2       Leggja skal fyrir stjórn til staðfestingar (eða synjunar) alla samninga sem stjórnarmaður og/eða framkvæmdastjóri kunna að gera við félagið og samninga milli félagsins og þriðja manns ef stjórnarmaður og/eða framkvæmdastjóri hafa verulega hagsmuni af slíkum samningum og þeir hagsmunir kunna að fara í bága við hagsmuni félagsins.

11.3       Ef ákvarðanir stjórnar varða málefni einstakra stjórnarmanna er rétt að slíkar ákvarðanir séu teknar af þeim stjórnarmönnum sem jafnframt eru óháðir félaginu. Viðkomandi stjórnarmenn skulu víkja af fundi meðan stjórn tekur afstöðu til slíkra málefna. Séu stjórnarmenn vanhæfir til afgreiðslu mála sem eru á dagskrá fundarins skulu þeir víkja af fundi meðan þau mál eru rædd og afgreidd.

12. gr.  Upplýsingagjöf

12.1       Framkvæmdastjóri skal á hverjum stjórnarfundi gera stjórn grein fyrir starfsemi félagsins frá síðasta fundi stjórnar í stórum dráttum. Kannað hálfsársuppgjör skal lagt fyrir stjórn eigi síðar en í lok ágúst ár hvert. Endurskoðuðu ársuppgjöri skal lokið í apríl ár hvert. Endurskoðendur félagsins skulu vera viðstaddir kynningu á hálfs- og ársuppgjöri. Stjórn skal ákveða hversu oft framkvæmdastjóri leggur fram milliuppgjör

12.2       Stjórn getur á fundum krafið framkvæmdastjóra og aðra helstu starfsmenn félagsins um upplýsingar og gögn sem stjórn eru nauðsynleg til að ráðið geti sinnt verkefnum sínum.

12.3       Upplýsingar frá framkvæmdastjóra og undirnefndum til stjórnar þurfa að vera á því formi og af þeim gæðum sem stjórn ákveður. Upplýsingar og gögn skulu vera aðgengileg stjórnarmönnum tímanlega fyrir stjórnarfundi, og á milli þeirra, og skulu allir stjórnarmenn fá sömu upplýsingarnar. Upplýsingar skulu vera eins uppfærðar og nákvæmar og unnt er hverju sinni.

12.4       Formaður stjórnar skal árlega leggja fyrir stjórn lista yfir stjórnarsetu framkvæmdastjóra, starfsmanna, stjórnarmanna og allra annarra fyrir hönd félagsins í dóttur- og hlutdeildarfélögum, sem og öðrum félögum.

12.5       Skýrsla stjórnar skal fylgja ársreikningi ár hvert. Í skýrslunni skal upplýsa um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu félagsins og afkomu þess á reikningsárinu og ekki koma fram í efnahagsreikningi eða rekstrarreikningi eða skýringum með þeim. Í skýrslu stjórnar skal enn fremur fjallað um mikilvæg atriði sem orðið hafa eftir lok reikningsárs og framtíðarhorfur félagsins.

12.6       Í skýrslunni skal gera grein fyrir tillögu stjórnar um ráðstöfun hagnaðar eða jöfnun taps á síðasta reikningsári. Upplýsa skal um fjölda hluthafa í upphafi og lok reikningsárs og upplýst um hundraðshluta hlutafjár þeirra.

12.7       Formaður stjórnar skal tryggja að vefsíða félagsins hafi að geyma upplýsingar um stjórnarhætti þess, sbr. 3.2. gr. um leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja.

12.8       Formaður stjórnar skal gæta þess að fyrirtækjafélagaskrá, ársreikningaskrá, skatt-yfirvöldum og öðrum stjórnvöldum séu sendar lögboðnar tilkynningar og framtöl.

13. gr. Undirritun ársreiknings o.fl.

13.1       Ársreikningur félagsins skal lagður fyrir stjórn til afgreiðslu og skal stjórn ásamt framkvæmdastjóra undirrita ársreikninginn. Telji stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri að ekki beri að samþykkja ársreikninginn, eða hann hefur mótbárur fram að færa sem hann telur rétt að hluthafar fái vitneskju um, skal hann gera grein fyrir því í áritun sinni.

13.2       Stjórn skal tryggja að ársreikningur félagsins feli í sér yfirlýsingu um stjórnarhætti þess í samræmi við gr. 3.2 um leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja.

14. gr.  Frekari reglur um störf stjórnar

14.1       Stjórnarmenn skulu kynna sér og vera bundnir af ákvæðum laga, almennum reglum um hlutafélög og sérstökum reglum félagsins um meðferð trúnaðarupplýsinga.

14.2       Um ábyrgð, vald og störf stjórnar fer að öðru leyti en greinir í starfsreglum þessum samkvæmt hlutafélagalögum, lögum um ársreikninga og öðrum almennum lögum og samþykktum félagsins.

15. gr.  Breytingar á starfsreglum stjórnar

15.1    Einungis stjórn getur gert breytingar á starfsreglum þessum. Til breytinga á starfsreglunum þarf samþykki einfalds meirihluta stjórnar. Æskilegt er að starfsreglur þessar séu yfirfarnar a.m.k. árlega.

16. gr.  Varsla og meðferð starfsreglna

16.1    Frumrit starfsreglna þessara, með áorðnum breytingum ef við á, skal jafnan geyma með fundargerðum félagsins.

16.2      Þeir sem eiga sæti í stjórn við setningu starfsreglna þessara skulu undirrita frumrit þeirra. Ef stjórn samþykkir breytingar á starfsreglunum skulu stjórnarmenn undirrita frumrit af reglunum svo breyttum. Nýjum stjórnarmönnum skulu kynntar starfsreglurnar og skulu þeir undirrita frumrit þeirra því til staðfestu.

16.3      Stjórnarmönnum, framkvæmdastjóra og endurskoðendum félagsins skal afhent eintak af starfsreglum og samþykktum félagsins sem í gildi eru á hverjum tíma.

Framangreindar starfsreglur stjórnar Framtakssjóðs Íslands slhf. eru settar samkvæmt 5. mgr. 46. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

Þannig samþykkt á stjórnarfundi Framtakssjóðs Íslands slhf. 22. febrúar 2012.