Fjárfestingaferli FSÍ er í sex megin þrepum:

a)      Könnun og greining fjárfestingatækifæra

b)      Frumkynning fyrir stjórn

c)      Ítarleg kynning fyrir stjórn

d)      Lokaumfjöllun stjórnar – áreiðanleikakönnun

e)      Eftirfylgni fjárfestinga

f)       Sala

a) Könnun og greining fjárfestingatækifæra

Það er hlutverk framkvæmdastjóra FSÍ og starfsmanna sjóðsins að finna og greina fjárfestingakosti fyrir hönd stjórnarinnar. Það felur í sér að eiga samstarf við fjármálastofnanir, fyrirtæki og fjárfesta sem áhuga hafa á viðskiptum við sjóðinn. FSÍ mun ekki eingöngu bíða umsókna um þátttöku heldur hafa frumkvæði með kerfisbundinni leit að áhugaverðum fjárfestingakostum

b) Frumkynning fyrir stjórn

Stjórnin fjallar á þessu stigi um hvort fjárfestingin hæfi sjóðnum og falli að þeim ramma sem ætti að gilda, um hugsanlega aðkomu sjóðsins að viðkomandi fjárfestingu. Leggja þarf mat á hvort fjárfestingin falli að fjárfestingastefnu sjóðsins og hvað tækifæri kunna að liggja í verkefninu. Fyrst að lokinni þessari kynningu fyrir stjórn, er tekin ákvörðun um hvort verkefnið fer í ítarlega skoðun.

c) Ítarleg kynning fyrir stjórn

Framkvæmdastjóri leggur fyrir stjórn fjárfestingatillögu og mat á því hvort fjárfestingin muni skila fjárhagslegum ávinning, hvort fjárfestingin uppfylli skilyrði um góða stjórnarhætti, hverju þarf að breyta í viðkomandi félagi þannig að fjárhagsleg markmið náist. Einnig verði lagt mat á það hvaða kostir eru í boði þegar horft er til útgönguleiða í samræmi við líftíma fjárfestinga samkvæmt fjárfestingastefnu.

d) Lokaumfjöllun stjórnar – áreiðanleikakönnun

Stjórnin tekur endanlega afstöðu til fjárfestingakosta. Sé ákvörðunin sú að taka þátt í viðkomandi fjárfestingu er hún samþykkt af stjórninni með fyrirvara um áreiðanleikakönnun um ýmsa þætti þar sem við á, sem er þá framkvæmd af löggiltum endurskoðanda eða öðrum til þess bærum aðila auk þess sem kaupsamningurinn verður yfirfarinn af lögfræðingi. Könnunin getur tekið til margra þátta s.s. rekstrar markaða, tækni og mannauðs. Stjórnin tilefnir fulltrúa í stjórn viðkomandi félags að fenginni tillögu framkvæmdastjóra og afgreiðir hluthafasamkomulag, kaupsamning og aðra samninga auk þess að ganga úr skugga um að atriðum er lúta að góðum stjórnarháttum sé fullnægt.

e) Eftirfylgni fjárfestinga

Lögð er áhersla á að FSÍ, sem áhrifafjárfestir, sé virkur þátttakandi í þeim fjárfestingum sem sjóðurinn tekur þátt í. Fulltrúar FSÍ í stjórnum fyrirtækja taka virkan þátt í stjórn og stefnumótun viðkomandi fyrirtækis og hafa eftirlit með framkvæmd hennar svo og rekstri og starfsemi félagsins. Þeim er jafnframt ætlað að gæta bæði hagsmuna félagsins og sjóðsins í hvívetna og gæta sérstaklega að því að ákvæði hluthafasamkomulags séu haldin og góðir stjórnarhættir hafðir í fyrirrúmi. Verði þeir varir við að ákvæði hluthafasamkomulags séu brotin ber honum tafarlaust að tilkynna framkvæmdastjóra FSÍ um slík brot. Félög sem fjárfest hefur verið í skulu með reglubundnum hætti veita FSÍ upplýsingar um lykiltölur úr rekstri ásamt framtíðaráformum. FSÍ skal leggja mat á hvar félag er statt miðað við upphaflegar áætlanir um aðgerðir, ávöxtun og mögulega sölu eigna.

f) Sala

Áhersla er lögð á að hámarka arðsemi fjárfestinga og að ávöxtunarmarkmið fjárfestingastefnu sjóðsins náist. Við sölu fjárfestinganna verði gætt að gegnsæju söluferli en valin sú leið sem best hentar hagsmunum sjóðsins. Eftir því sem við verður komið verður sala einstakra fjárfestinga byggð á skráningu hlutabréfa viðkomandi fyrirtækja í kauphöll. Framkvæmdastjóri gerir tillögu til stjórnar sjóðsins um sölu einstakra eignarhluta, en stjórnin eða einstaka stjórnarmenn geta líka lagt fram tillögu um sölu einstakra eignarhluta. Sýnist sem fjárfesting sé ekki að ná þeim markmiðum sem að var stefnt getur framkvæmdastjóri eða stjórn gert tillögu um sölu eigna.