Fjárfestingarstefna FSÍ 2014

Efnisyfirlit

1.      Almenn samantekt og áherslur FSÍ í fjárfestingum

2.      Stjórnarhættir

3.      Samfélagslega ábyrgar fjárfestingar

4.      Fjárfestingar

5.      Fjárfestingaferli

6.      Endurskoðunarákvæði

7.      Viðaukar

1. Almenn samantekt og áherslur FSÍ í fjárfestingum:

Hlutverk Framtakssjóðs Íslands slhf. (FSÍ) er að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum og er engi atvinnugrein undanskilin. Einkum er horft til stærri fyrirtækja sem lent hafa í fjárhagserfiðleikum vegna erfiðleika í íslensku efnhagslífi, en eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll auk annarra fyrirtækja sem þykja áhugaverðir fjárfestingakostir. Sjóðurinn fjárfestir einkum í starfandi fyrirtækjum en ekki í sprota- eða nýsköpunarfyrirtækjum. Markmiðið með starfsemi FSÍ er að ná góðri arðsemi á fjárframlög hluthafa.

Sjóðnum er heimilt að fjárfesta erlendis, ekki síst ef möguleikar eru á sameiningu við fyrirtæki í eigu sjóðsins hér á landi eða til að styrkja stöðu íslenskra fyrirtækja.

FSÍ mun taka þátt í að endurreisa íslenskan hlutabréfamarkað með því að fjölga skráðum félögum.  Miðað er við að skráning félaga á almennan hlutabréfamarkað verði sem fyrst að aflokinni endurskipulagningu rekstrarins og stefnt er að sölu félaga ekki síðar en 4‐7 árum eftir viðkomandi fjárfestingu. Andvirði hverrar sölu verður greitt út til hluthafa hlutfallslega en ekki endurfjárfest í FSÍ. Reiknað er með að starfstími sjóðsins geti orðið allt að 10 ár, með möguleika á framlengingu í 2 ár til viðbótar, og verður FSÍ þá slitið.

FSÍ leggur áherslu á fagmennsku í vinnubrögðum þannig að traust og tiltrú á starfseminni skapist  meðal almennings, hjá lífeyrissjóðunum og öðrum eigendum, hjá aðilum vinnumarkaðarins, stjórnvöldum og hjá viðskiptaaðilum sem og hjá þeim fyrirtækjum sem sjóðurinn kann að eignast hluti í eða eiga viðskipti við. Framkvæmd fjárfestingastefnu FSÍ skal vera í samræmi við skilmála fyrir félagið, starfsreglur stjórnar og siða- og samskiptareglur félagsins, sjá meðfylgjandi viðauka. Þá skipar stjórnin að tilnefningu eigenda FSÍ sérstakt ráðgjafaráð sem er umsagnaraðili um fjárfestingastefnu sjóðsins að fenginni tillögu stjórnar FSÍ.

Helstu áhersluatriði  FSÍ í fjárfestingum:

*         Markmiðið með starfsemi FSÍ er að ná góðri arðsemi á fjárframlög hluthafa

*         Fjárfest er í starfandi fyrirtækjum sem eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll

*         Lágmarksfjárfesting er 500 milljónir kr.

*         Hámark í einstakri fjárfestingu er um 15% af hlutafjárloforðum hluthafa sjóðsins

*         Hámark í einni atvinnugrein er 30% af hlutafjárloforðum hluthafa sjóðsins

*         Hámark í fjárfestingu í öðrum sjóðum er 20% af hlutafé viðkomandi sjóða

*         Fjárfesting er að jafnaði á bilinu 20-55% af hlutafé viðkomandi félags

*         Stefnt er að skráningu félaga á hlutabréfamarkaði

*         Stefnt er að sölu félaga eigi síðar en 4-7 árum eftir einstaka fjárfestingu

 

2. Stjórnarhættir

Í starfsemi FSÍ verður lögð áhersla á að fylgja leiðbeiningum um góða stjórnarhætti fyrirtækja. Við ákvarðanir um fjárfestingar í hlutafélögum verður litið til reglna OECD, Viðskiptaráðs Íslands, Kauphallar Íslands og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja. Þá mun einnig þegar slíkt á við, verða horft til leiðbeininga um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja sem gefin hafa verið út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq OMX Ísland og Samtökum atvinnulífsins. Ennfremur verður litið til reglna ASÍ um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar.

FSÍ er áhrifafjárfestir sem hefur, ásamt góðri arðsemi af hlutabréfaeign sinni, það að markmiði að stuðla að vexti og viðgangi þeirra fyrirtækja sem hann fjárfestir í. FSÍ leggur áherslu á að gegna hlutverki sínu með ábyrgum hætti og leggur þar til grundvallar mikilvæg samfélagsleg gildi auk þess sem rík áhersla verður lögð á góða stjórnarhætti með það að markmiði að tryggja hagsmuni sjóðsins sem fjárfestis.

FSÍ mun gegna eigendaskyldum sínum með virkum hætti og koma ábendingum um rekstur og stefnu auk bættra stjórnarhátta fyrirtækja þar sem sjóðurinn er hluthafi í á framfæri. Það gerir hann með hluthafastefnu sinni, með hluthafasamkomulagi, á stjórnarfundum og hluthafafundum og með beinum samskiptum við stjórnendur viðkomandi fyrirtækja.

Reglur stjórnsýslulaga um hæfi stjórnarmanna munu gilda um aðkomu að málsmeðferð einstakra mála og ákvarðanatöku í stjórn FSÍ. Það felur m.a. í sér að stjórnarmenn munu ekki taka þátt í umræðum eða ákvörðunum á stjórnarfundum FSÍ um málefni fyrirtækja þar sem þeir hafa hagsmuna að gæta. FSÍ mun leggja áherslu á að sama fyrirkomulag verði viðhaft eftir því sem við á í stjórnum þeirra fyrirtækja þar sem sjóðurinn er hluthafi.

Mikilvægt er að sjóðurinn haldi fjárfestum í sjóðnum vel upplýstum um fjárfestingar og starfsemi sjóðsins.

3. Samfélagslega ábyrgar fjárfestingar

Sjóðurinn tekur ekki þátt í fjárfestingum sem orka tvímælis út frá almennum siðferðisreglum. Sjóðurinn leggur ítarlegt mat á fjárfestingarkosti sína og kappkostar að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru eða geta orðið með virkri þátttöku sjóðsins, vel rekin og sem viðhafa m.a. góða stjórnunarhætti, sýna samfélagslega ábyrgð og ábyrgð í umhverfismálum.

Sjóðurinn leggur áherslu á að þau fyrirtæki sem fjárfest er í starfi samkvæmt lögum og reglum, virði alþjóðlega sáttmála um mannréttindi og réttindi launafólks.

Sjóðurinn leggur heildstætt mat á stjórnun og starfsemi fyrirtækis út frá þáttum á borð við framleiðsluvörur þess, framleiðsluferli, sambandi við viðskiptavini, fyrirtækjamenningu, eignarhald og hagsmuni eigenda. Sjóðurinn byggir mat sitt á opinberum upplýsingum og upplýsingum sem fyrirtækið sjálft veitir. Mat er lagt á afstöðu stjórnar og ábyrgð fyrirtækis og stjórnun með hliðsjón af ofangreindum þáttum. Sjóðurinn skal í ársskýrslu sinni gera grein fyrir fjárfestingum sínum með sérstakri hliðsjón af stefnu í samfélagslega ábyrgum fjárfestingum.

4. Fjárfestingar

Þátttaka FSÍ verður fyrst og fremst í formi hlutafjáraukningar og kaupa á hlutafé í viðkomandi félagi. Önnur aðkoma svo sem með víkjandi láni eða breytilegu skuldabréfi til að lágmarka áhættu við fjárframlag getur verið valkostur í einstaka tilfellum frekar en bein fjárfesting í hlutafé. Fjárfestingar verða ekki takmarkaðar við tilteknar atvinnugreinar og stefnt er að áhættudreifingu í fjárfestingum til lengri tíma litið.

 

Til lengri tíma er stefnt að því að árleg heildarávöxtun arðgreiðslna og hækkandi markaðsverðmæti eigna sjóðsins sé þannig að ávöxtun af framlagi hluthafa Framtakssjóðsins verði að jafnaði yfir því  sem almennt er meðal fjárfestinga hjá lífeyrissjóðum í eðlilegu árferði.

Kröfur verða á hverjum tíma gerðar um lágmarksstærð fyrirtækja sem fjárfest er í og er þá m.a. litið til heildarumsvifa. Lágmarksfjárfesting í einstökum fyrirtækjum er að jafnaði yfir 500 milljónir króna og hámarksfjárfesting í fyrstu er um 8.000 milljónir króna. Heimilt er að fjárfesta í öðrum fjárfestingasjóðum ef fjárfestingastefna þeirra fullnægir kröfum og rúmast innan stefnu FSÍ. Í þeim efnum má líta til þess að smærri verkefni fái úrlausn fyrir milligöngu slíkra sjóða. Ekki er fjárfest fyrir stærri hlut í slíkum sjóðum en 20% af heildarhlutafé viðkomandi sjóða.

Ekki eru takmarkanir á eignarhlutdeild FSÍ í fyrirtækjum. Að jafnaði er þó horft til eignarhlutar á bilinu 20%-55% sem gefi FSÍ nægileg og hæfileg áhrif á stjórnun viðkomandi hlutafélaga. Áður en til útborgunar fjárfestinga kemur skal liggja fyrir samkomulag sem stillir saman hagsmuni og stefnu helstu fjárfesta.

Framtakssjóði Íslands er heimilt að fjárfesta í fyrirtækjum með öðrum aðilum (meðfjárfestum). Ákveði FSÍ að bjóða hluthöfum í FSÍ að gerast meðfjárfestar í einstökum verkefnum, skal hluthöfum boðin þátttaka í hlutfalli við hlutafjárframlag sitt.

 

5. Fjárfestinga- og söluferli

Fjárfestingaferli FSÍ verður í sex megin þrepum:

a)      Könnun og greining fjárfestingatækifæra

b)      Frumkynning fyrir stjórn

c)      Ítarleg kynning fyrir stjórn

d)      Lokaumfjöllun stjórnar – áreiðanleikakönnun

e)      Eftirfylgni fjárfestinga

f)       Sala

a) Könnun og greining fjárfestingatækifæra

Það er hlutverk framkvæmdastjóra FSÍ og starfsmanna sjóðsins að finna og greina fjárfestingakosti fyrir hönd stjórnarinnar. Það felur í sér að eiga samstarf við fjármálastofnanir, fyrirtæki og fjárfesta sem áhuga hafa á viðskiptum við sjóðinn. FSÍ mun ekki eingöngu bíða umsókna um þátttöku heldur hafa frumkvæði með kerfisbundinni leit að áhugaverðum fjárfestingakostum

b) Frumkynning fyrir stjórn

Stjórnin fjallar á þessu stigi um hvort fjárfestingin hæfi sjóðnum og falli að þeim ramma sem ætti að gilda, um hugsanlega aðkomu sjóðsins að viðkomandi fjárfestingu. Leggja þarf mat á hvort fjárfestingin falli að fjárfestingastefnu sjóðsins og hvað tækifæri kunna að liggja í verkefninu. Fyrst að lokinni þessari kynningu fyrir stjórn, er tekin ákvörðun um hvort verkefnið fer í ítarlega skoðun.

c) Ítarleg kynning fyrir stjórn

Framkvæmdastjóri leggur fyrir stjórn fjárfestingatillögu og mat á því hvort fjárfestingin muni skila fjárhagslegum ávinning, hvort fjárfestingin uppfylli skilyrði um góða stjórnarhætti, hverju þarf að breyta í viðkomandi félagi þannig að fjárhagsleg markmið náist. Einnig verði lagt mat á það hvaða kostir eru í boði þegar horft er til útgönguleiða í samræmi við líftíma fjárfestinga samkvæmt fjárfestingastefnu.

 

d) Lokaumfjöllun stjórnar – áreiðanleikakönnun

Stjórnin tekur endanlega afstöðu til fjárfestingakosta. Sé ákvörðunin sú að taka þátt í viðkomandi fjárfestingu er hún samþykkt af stjórninni með fyrirvara um áreiðanleikakönnun um ýmsa þætti þar sem við á, sem er þá framkvæmd af löggiltum endurskoðanda eða öðrum til þess bærum aðila auk þess sem kaupsamningurinn verður yfirfarinn af lögfræðingi. Könnunin getur tekið til margra þátta s.s. rekstrar markaða, tækni og mannauðs. Stjórnin tilefnir fulltrúa í stjórn viðkomandi félags að fenginni tillögu framkvæmdastjóra og afgreiðir hluthafasamkomulag, kaupsamning og aðra samninga auk þess að ganga úr skugga um að atriðum er lúta að góðum stjórnarháttum sé fullnægt.

e) Eftirfylgni fjárfestinga

Lögð er áhersla á að FSÍ, sem áhrifafjárfestir, sé virkur þátttakandi í þeim fjárfestingum sem sjóðurinn tekur þátt í. Fulltrúar FSÍ í stjórnum fyrirtækja taka virkan þátt í stjórn og stefnumótun viðkomandi fyrirtækis og hafa eftirlit með framkvæmd hennar svo og rekstri og starfsemi félagsins. Þeim er jafnframt ætlað að gæta bæði hagsmuna félagsins og sjóðsins í hvívetna og gæta sérstaklega að því að ákvæði hluthafasamkomulags séu haldin og góðir stjórnarhættir hafðir í fyrirrúmi. Verði þeir varir við að ákvæði hluthafasamkomulags séu brotin ber honum tafarlaust að tilkynna framkvæmdastjóra FSÍ um slík brot. Félög sem fjárfest hefur verið í skulu með reglubundnum hætti veita FSÍ upplýsingar um lykiltölur úr rekstri ásamt framtíðaráformum. FSÍ skal leggja mat á hvar félag er statt miðað við upphaflegar áætlanir um aðgerðir, ávöxtun og mögulega sölu eigna.

f) Sala

Áhersla er lögð á að hámarka arðsemi fjárfestinga og að ávöxtunarmarkmið fjárfestingastefnu sjóðsins náist. Við sölu fjárfestinganna verði gætt að gegnsæju söluferli en valin sú leið sem best hentar hagsmunum sjóðsins. Eftir því sem við verður komið verður sala einstakra fjárfestinga byggð á skráningu hlutabréfa viðkomandi fyrirtækja í kauphöll. Framkvæmdastjóri gerir tillögu til stjórnar sjóðsins um sölu einstakra eignarhluta, en stjórnin eða einstaka stjórnarmenn geta líka lagt fram tillögu um sölu einstakra eignarhluta. Sýnist sem fjárfesting sé ekki að ná þeim markmiðum sem að var stefnt getur framkvæmdastjóri eða stjórn gert tillögu um sölu eigna.

6. Endurskoðunarákvæði

Stefnt er að endurskoðun á fjárfestingastefnu FSÍ í byrjun árs 2014.

7. Viðaukar

1.      Skilmálar fyrir félagið dagsettir 8. desember 2009, með breytingum sem samþykktar voru á hluthafafundi félagsins 7. júní 2012

2.      Starfsreglur stjórnar samþykktar 23. mars 2012

3.      Siða- og samskiptareglur félagsins samþykktar 11. janúar 2010

4.      Reglur OECD um stjórnarhætti fyrirtækja

5.      Reglur Viðskiptaráðs Íslands, Kauphallar Íslands, og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja.

6.      Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja útgefin af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq OMX Íslandi og Samtökum atvinnulífsins

7.      Reglur ASÍ um samfélagslegar ábyrgar fjárfestingar

Samþykkt á stjórnarfundi í Framtakssjóði Íslands 24. janúar 2014