Starfsreglur stjórnar FSÍ GP

Í starfsemi Framtakssjóðs er lögð áhersla á að fylgja leiðbeiningum um góða stjórnarhætti fyrirtækja. Við ákvarðanir um fjárfestingar í hlutafélögum verður litið til reglna OECD um stjórnarhætti fyrirtækja og reglna Viðskiptaráðs Íslands, Kauphallar Íslands og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja. Þá mun einnig verða horft til leiðbeininga um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja sem gefin hafa verið út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq OMX Ísland og Samtökum atvinnulífsins. Ennfremur verður litið til reglna ASÍ um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar.

FSÍ gegnir eigendaskyldum sínum með virkum hætti og kemur ábendingum um rekstur og stefnu auk bættra stjórnarhátta fyrirtækja sem sjóðurinn er hluthafi í á framfæri með hluthafastefnu sinni, með hluthafasamkomulagi, á stjórnarfundum og hluthafafundum og með beinum samskiptum við stjórnendur viðkomandi fyrirtækja.

Reglur stjórnsýslulaga um hæfi stjórnarmanna gilda um aðkomu að málsmeðferð einstakra mála og ákvarðanatöku í stjórn FSÍ. Það felur m.a. í sér að stjórnarmenn munu ekki taka þátt í umræðum eða ákvörðunum á stjórnarfundum FSÍ um málefni fyrirtækja þar sem þeir hafa hagsmuna að gæta. mun leggja áherslu á að sama fyrirkomulag verði viðhaft eftir því sem við á í stjórnum þeirra fyrirtækja þar sem sjóðurinn er hluthafi.

FSÍ er áhrifafagfjárfestasjóður sem hefur ásamt góðri arðsemi af hlutabréfaeign sinni það að markmiði að stuðla að vexti og viðgangi þeirra fyrirtækja sem hann fjárfestir í. FSÍ leggur áherslu á að gegna hlutverki sínu sem fagfjárfestasjóður með ábyrgum hætti og leggur þar til grundvallar mikilvæg samfélagsleg gildi auk þess sem rík áhersla verður lögð á góða stjórnarhætti með það að markmiði að tryggja að hagsmunum sjóðsins sem fagfjárfestis sé sem best borgið. Þar verður m.a. horft til reglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar. Þá mun sjóðurinn setja sér almenn viðmið varðandi umhverfismál sem og félagslega ábyrgð og mannréttindi. Mikilvægt er að sjóðurinn haldi fjárfestum í sjóðnum vel upplýstum um fjárfestingar og starfsemi sjóðsins.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2011

Kaup Framtakssjóðs Íslands á Eignarhaldsfélaginu Vestia ehf. og meirihluta hlutafjár í Icelandic Group hf. voru talin fela í sér samruna í skilningi 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2011 frá 14. janúar 2011. Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins voru tiltekin skilyrði sett samrunanum. Markmið ákvörðunarinnar er að sporna gegn skaðlegum hagsmunatengslum eða öðrum samkeppnishindrunum sem stafað geta af eignarhaldi FSÍ og óbeinu eignarhaldi eigenda hans á atvinnufyrirtækjum á samkeppnismörkuðum. Samkvæmt ákvörðuninni skal FSÍ fela starfsmanni sjóðsins, eða óháðum aðila sem stjórn FSÍ velur, það hlutverk að hafa eftirlit með því að skilyrðum ákvörðunarinnar sé fylgt. Í samræmi við það hefur FSÍ falið Herdísi Dröfn Fjeldsted, starfsmanni FSÍ, hlutverk eftirlitsaðila. Mun eftirlitsaðili skila Samkeppniseftirlitinu skýrslu um starf sitt fyrir lok apríl- og októbermánaða ár hvert. Með því og að öðru leyti reglubundnu eftirliti eftirlitsaðila mun það tryggt að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins verði fylgt eftir.