Með stofnun Framtakssjóðs Íslands slhf.(FSÍ) vildu lífeyrissjóðirnir á Íslandi stuðla að endurreisn íslensks atvinnulífs og nýta fjárfestingartækifæri til að endurheimta hluta af tapaðri ávöxtun þeirra vegna hrunsins sem átti sér stað á 2008.  Endurreisn fyrirtækja er forsenda vaxtar og viðgangs efnahagslífsins og þar með lífeyrissjóðanna. Endurreisn hlutabréfamarkaðar er mikilvæg og ein af forsendum þess að FSÍ geti innleyst ávöxtun í fyllingu tímans.

Hluthafastefna FSÍ skal  lögð fram í stjórnum allra hlutafélaga þar sem sjóðurinn fjárfestir beint eða óbeint.  Hún felst í eftirfarandi  þáttum:

Markmið FSÍ um áhrif samfara eignarhaldi

1. FSÍ er áhrifafjárfestir, einkum í félögum sem eru líkleg til að verða skráð á markaði, og leitar í þeim efnum samstarfs við aðra aðila sem njóta trausts, utan lands sem innan.

2. Stefnt er að skráningu fyrirtækja á markaði, sölu þeirra eða sameiningu við önnur félög.  Tenging við aðra hlutabréfamarkaði hérlendis og erlendis með tvöfaldri skráningu er æskileg, í því skyni að styrkja raunhæfa verðmyndun hlutabréfa.

3. FSÍ kemur að rekstri viðkomandi fyrirtækja með beinni þátttöku í stjórn þeirra og tilnefnir að jafnaði í stjórn starfsmenn FSÍ eða utanaðkomandi sérfræðinga en í undantekningartilfellum stjórnarmenn í FSÍ.

4. Fulltrúar FSÍ í stjórnum fyrirtækja skulu upplýsa stjórn FSÍ með reglubundnum hætti um rekstur, afkomu og horfur í viðkomandi félögum, og ekki sjaldnar en á þriggja mánaða fresti.

Markmið FSÍ um ávöxtun og arðsemi

5. Markmið FSÍ er að færa hluthöfum sjóðsins góða heildarávöxtun með arðgreiðslum,hækkandi markaðsverðmæti og sölu eigna sjóðsins.  FSÍ væntir þess að þau félög sem fjárfest er í fylgi þessum markmiðum.  FSÍ leggur áherslu á arðsemi, vöxt og stöðugleika í dóttur-og hlutdeildarfélögum sínum og hagur hluthafa (shareholder value) er  meginmarkmið sjóðsins.

Markmið FSÍ um stjórnhætti og áhættustýringu

6. FSÍ leggur áherslu á að virkri áhættustjórnun sé beitt í þeim félögum sem fjárfest er ítil að efla stöðugleika og þar með hag hluthafa.

7. FSÍ leggur áherslu á að skipt sé um endurskoðendur með reglubundnum hætti í þeim félögum sem fjárfest er í.

Markmið FSÍ um samfélagslega ábyrgð

8. Stjórn FSÍ og starfsmenn hans eru meðvitaðir um þá ábyrgð sem fylgir því að ráðstafa fjármunum hluthafa FSÍ, sem eru almannafé, og taka jafnframt tillit til samfélagslegrar ábyrgðar í rekstri fyrirtækja.  FSÍ tekur ekki þátt í fjárfestingum sem orka tvímælis út frá almennum siðferðisreglum.  Hins sama er vænst af hendi þeirra félaga sem fjárfest er í.

9. FSÍ tekur ekki afstöðu í stjórnmálum og leggur því ekki fram fé til stuðnings þeim sem taka þátt í þeim. FSÍ leggur aðeins viðskiptaleg sjónarmið til grundvallar í viðskiptum. Hins sama er vænst af hendi þeirra félaga sem fjárfest er í.

10. Í starfi FSÍ er rík áhersla lögð á góða og ábyrga stjórnarhætti og að fylgt sé í aðalatriðum þeim reglum sem Kauphöll Íslands og Viðskiptaráð hafa sett um starfsreglur stjórnar, kynjahlutfall í stjórn, upplýsingaskyldu o.fl.Það viðfangsefni er víðtækt, en hér skal sérstaklega minnt á þá hófsemi og varfærni  sem ber að gæta þegar farið er með almannafé. Móttaka gesta, gjafir, risna og ferðakostnaður eru í þessum efnum viðkvæmir þættir og leggur FSÍ áherslu á að í öllum þeim félögum sem fjárfest er beint og óbeint í sé þessa gætt sérstaklega.

Hluthafastefna Framtakssjóðs Íslands slhf. er í samræmi við skilmála, fjárfestingastefnu, starfsreglur og siða- og samskiptareglur félagsins.

Fjárfestingarstefna FSÍ slhf. undirrituð 23. jan 2014