Hlutverk

Hlutverk Framtakssjóðs Íslands slhf. er að taka þátt í að móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs í kjölfar falls fjármálakerfisins 2008. FSÍ stefnir að fjárfestingum í íslenskum fyrirtækjum og er engin atvinnugrein undanskilin. Einkum er horft til stærri fyrirtækja sem lent hafa í fjárhagserfiðleikum en eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll auk annarra fyrirtækja sem þykja áhugaverðir fjárfestingakostir. Kröfur eru settar um lágmarksstærð fyrirtækja sem fjárfest er í. Sjóðurinn fjárfestir einkum í starfandi fyrirtækjum en ekki í sprota- eða nýsköpunarfyrirtækjum enda eru aðrir sérhæfðir sjóðir á þeim vettvangi. Markmiðið með starfsemi FSÍ er að ná góðri arðsemi á fjárframlög hluthafa. Ekki eru takmarkanir á eignarhlutdeild FSÍ í fyrirtækjum. Að jafnaði er þó horft til eignarhlutar á bilinu 20-55% sem gefur FSÍ nægileg og hæfileg áhrif á stjórnun viðkomandi hlutafélaga. Ráðgjafaráð er umsagnaraðili um fjárfestingastefnu FSÍ að fenginni tillögu stjórnar FSÍ.

Sjóðurinn mun taka þátt í fjárfestingum sem stuðla að sem mestri framlegð fyrirtækja. Þá er sjóðnum heimilt að fjárfesta erlendis í tengslum við markaðssókn íslenskra fyrirtækja, ekki síst þegar möguleiki er á sameiningu við fyrirtæki í eigu sjóðsins hér á landi.

FSÍ mun taka þátt í að endurreisa íslenskan hlutabréfamarkað með því að fjölga skráðum félögum sem eru í senn megnug til að hefja sókn í atvinnumálum og styrkja jafnframt atvinnuöryggi og skilvísi í viðskiptalífinu.  Miðað er við að skráning félaga á almennan hlutabréfamarkað verði sem fyrst að aflokinni endurskipulagningu rekstrarins og stefnt er að sölu félaga ekki síðar en 4‐7 árum eftir einstaka fjárfestingu. Andvirði hverrar sölu verður greitt út til hluthafa hlutfallslega en ekki endurfjárfest í FSÍ. Reiknað er með að starfstími sjóðsins geti orðið allt að 10 ár, með möguleika á framlengingu, og verður FSÍ þá slitið.

Stefna

Megininntak hluthafastefnu sjóðsins er að FSÍ sé áhrifafagfjárfestasjóður sem hefur ásamt góðri arðsemi af hlutabréfaeign sinni það að markmiði að stuðla að vexti og viðgangi þeirra fyrirtækja sem hann fjárfestir í. Enn fremur er horft til reglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, en nokkrir íslenskir lífeyrissjóðir eiga aðild að reglunum, sem taka til umhverfislegra og félagslegra þátta í starfsemi fyrirtækja auk góðra stjórnarhátta. Þá mun sjóðurinn setja sér almenn viðmið varðandi umhverfismál sem og félagslega ábyrgð og mannréttindi.

Áherslur

  • Markmiðið með starfsemi FSÍ er að ná góðri arðsemi á fjárframlög hluthafa
  • Fjárfest er í starfandi fyrirtækjum sem eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll
  • Lágmarksfjárfesting er 500 milljónir kr.
  • Hámark í einstakri fjárfestingu er um 15% af hlutafjárloforðum hluthafa sjóðsins
  • Hámark í einni atvinnugrein er 30% af hlutafjárloforðum hluthafa sjóðsins
  • Hámark í fjárfestingu í öðrum sjóðum er  20% af hlutafé viðkomandi sjóða
  • Fjárfesting er að jafnaði á bilinu 20-55% af hlutafé viðkomandi félags
  • Stefnt er að skráningu félaga á hlutabréfamarkaði
  • Stefnt er að sölu félaga eigi síðar en 4-7 árum eftir einstaka fjárfestingu.

FSÍ leggur áherslu á fagmennsku í vinnubrögðum þannig að traust og tiltrú á starfseminni skapist bæði í baklandi sjóðsins meðal lífeyrissjóðanna, aðila vinnumarkaðarins, stjórnvalda og hjá viðskiptaaðilum sem og hjá þeim fyrirtækjum sem sjóðurinn kann að eignast hluti í eða eiga viðskipti við. Framkvæmd fjárfestingarstefnu FSÍ skal vera í samræmi við skilmála fyrir félagið, starfsreglur stjórnar og siða- og samskiptareglur félagsins.

FSÍ mun leggja áherslu á að gegna hlutverki sínu sem fagfjárfestasjóður með ábyrgum hætti og leggja í því sambandi til grundvallar mikilvæg samfélagsleg gildi auk þess sem rík áhersla verður lögð á góða stjórnarhætti með það að markmiði að tryggja að hagsmunum sjóðsins sem fagfjárfestasjóður sé sem best borgið.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2011

Kaup Framtakssjóðs Íslands á Eignarhaldsfélaginu Vestia ehf. og meirihluta hlutafjár í Icelandic Group hf. voru talin fela í sér samruna í skilningi 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2011 frá 14. janúar 2011. Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins voru tiltekin skilyrði sett samrunanum. Markmið ákvörðunarinnar er að sporna gegn skaðlegum hagsmunatengslum eða öðrum samkeppnishindrunum sem stafað geta af eignarhaldi FSÍ og óbeinu eignarhaldi eigenda hans á atvinnufyrirtækjum á samkeppnismörkuðum. Samkvæmt ákvörðuninni skal FSÍ fela starfsmanni sjóðsins, eða óháðum aðila sem stjórn FSÍ velur, það hlutverk að hafa eftirlit með því að skilyrðum ákvörðunarinnar sé fylgt. Í samræmi við það hefur FSÍ falið Herdísi Dröfn Fjeldsted, starfsmanni FSÍ, hlutverk eftirlitsaðila. Mun eftirlitsaðili skila Samkeppniseftirlitinu skýrslu um starf sitt fyrir lok apríl- og októbermánaða ár hvert. Með því og að öðru leyti reglubundnu eftirliti eftirlitsaðila mun það tryggt að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins verði fylgt eftir.