Eftir hrun fjármálakerfis Íslands og fall íslensku bankanna árið 2008 myndaðist brýn þörf fyrir endurreisn íslensks atvinnulífs. Þann 8. desember 2009 var Framtakssjóður Íslands (FSÍ) slhf (samlagshlutafélag) formlega stofnaður af sextán lífeyrissjóðum innan vébanda Landssambands lífeyrissjóða. Síðar bættust Landsbankinn og VÍS í hóp eigenda. Stofnendur sjóðsins ráða yfir um 64% af heildareignum lífeyrissjóða á Íslandi. Öðrum fagfjárfestum en lífeyrissjóðum er heimilt að gerast hluthafar í FSÍ slhf. Samanlagður hlutur annarra fagfjárfesta skal þó aldrei verða meiri en 49% hlutafjár í FSÍ slhf.

Tilgangur með stofnun Framtakssjóðs var að taka þátt í og móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs. FSÍ er ætlað að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum sem eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll. Markmiðið er að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði og um leið skilað góðri ávöxtun til fjárfesta á allt að 10 ára líftíma sjóðsins. Nánar um hlutverk og stefnu FSÍ.

Stjórn FSÍ er skipuð fimm einstaklingum. Stjórnin setur sjóðnum fjárfestingastefnu að fenginni umsögn sérstaks átján manna ráðgjafaráðs. Gert er ráð fyrir nýfjárfestingum á vegum sjóðsins fyrstu þrjú árin og skráningu eða sölu félaga að hluta eða öllu leyti innan 4-7 ára.