FRAMTAKSSJÓÐUR ÍSLANDS SLHF.

 

SKILMÁLAR FYRIR FAGFJÁRFESTASJÓÐ

1        FAGFJÁRFESTASJÓÐURINN – FRAMTAKSSJÓÐUR ÍSLANDS SLHF.

1.1    Framtakssjóður Íslands slhf. er samlagshlutafélag, skráð og stofnað í Reykjavík í samræmi við íslensk lög og reglur. Heimili félagsins er í Reykjavík. Kennitala   Framtakssjóðs Íslands slhf. er 651109-0510.

1.2     Ábyrgðaraðili og hluthafar gera samning þennan til að mæla fyrir um nokkra þætti samskipta þeirra sem hluthafa í félaginu og sem hluthafa í ábyrgðaraðilanum.

2        SKILGREINING OG TÚLKUN

2.1     Kaflafyrirsagnir sem hér eru notaðar eru eingöngu til tilvísunar og hafa alls engin áhrif á merkingu eða túlkun samnings þessa.

2.2     Málfræðilegt karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn, og eintala og fleirtala, eru í samningi þessum notuð þannig að hvert þeirra skal hvarvetna talið fela í sér hin, þar sem samhengi krefst.

3        MARKMIÐ

3.1     Framtakssjóður Íslands slhf. mun ávaxta innborgað fé með fjárfestingum í íslenskum fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum sem eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll.

3.2     Hlutverk Framtakssjóðs Íslands slhf. (FSÍ) er að taka þátt í og móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs í kjölfar falls fjármálakerfisins. FSÍ mun fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum sem eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll. Markmið Framtakssjóðs Íslands slhf. er að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði og um leið skilað góðri ávöxtun til fjárfesta. Framtakssjóði Íslands slhf. er heimilt að fjárfesta erlendis að því marki sem nauðsynlegt er, t.d. vegna markaðssóknar íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði, ekki síst þegar möguleiki er á sameiningu eða samruna við fyrirtæki í eigu Framtakssjóðs Íslands slhf.

3.3     Framtakssjóður Íslands slhf. mun einnig taka þátt í brúar- og/eða viðaukafjárfestingum til að stuðla að hagræðingu eða samruna fyrirtækja.

4        FJÁRFESTINGASTEFNA

4.1     Stjórn FSÍ setur sjóðnum fjárfestingastefnu að fenginni umsögn ráðgjafaráðs, sbr. grein 16.

4.2     Í starfsemi FSÍ verður lögð áhersla á að fylgja leiðbeiningum um góða stjórnarhætti fyrirtækja. Við ákvarðanir um fjárfestingar í hlutafélögum verður litið til reglna OECD um stjórnarhætti fyrirtækja og reglna Viðskiptaráðs Íslands, Kauphallar Íslands og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja. Þá mun einnig verða litið til leiðbeininga um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja sem gefin hafa verið út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq OMX Ísland og Samtökum atvinnulífsins. Ennfremur verður horft til reglna ASÍ um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar og settar reglur um innri starfsemi.

4.3     FSÍ mun gegna eigendaskyldum sínum með virkum hætti og koma ábendingum um rekstur og stefnu fyrirtækja auk bættra stjórnarhátta sem sjóðurinn er hluthafi í á framfæri á stjórnarfundum og hluthafafundum og með beinum samskiptum við stjórnendur viðkomandi fyrirtækja.

4.4     Reglur stjórnsýslulaga um hæfi stjórnarmanna munu gilda um aðkomu að málsmeðferð einstakra mála og ákvarðanatöku í stjórn FSÍ. Það felur m.a. í sér að stjórnarmenn munu ekki taka þátt í umræðum eða ákvörðunum á stjórnarfundum FSÍ um málefni fyrirtækja þar sem þeir hafa hagsmuna að gæta. FSÍ mun leggja áherslu á að sama fyrirkomulag verði viðhaft eftir því sem við á í stjórnum þeirra fyrirtækja þar sem sjóðurinn er hluthafi.

4.5     FSÍ mun leggja áherslu á að gegna hlutverki sínu sem fagfjárfestasjóður með ábyrgum hætti og leggja í því sambandi til grundvallar mikilvæg samfélagsleg gildi auk þess sem rík áhersla verður lögð á góða stjórnarhætti með það að markmiði að tryggja að hagsmunum sjóðsins sem fagfjárfestis sé sem best borgið.

4.6     Á grundvelli þessa mun FSÍ setja sér eigendastefnu sem gerð verður grein fyrir opinberlega. Megininntak hennar verður að sjóðurinn er áhrifafagfjárfestasjóður sem hefur ásamt góðri arðsemi af hlutabréfaeign sinni það að markmiði að stuðla að vexti og viðgangi þeirra fyrirtækja sem hann fjárfestir í. Enn fremur verður horft til reglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, en nokkrir íslenskir lífeyrissjóðir eiga aðild að reglunum, sem taka til umhverfislegra og félagslegra þátta í starfsemi fyrirtækja auk góðra stjórnarhátta. Þá mun sjóðurinn setja sér almenn viðmið varðandi umhverfismál sem og félagslega ábyrgð og mannréttindi.

4.7     Fjárfestingar verða ekki takmarkaðar við tilteknar atvinnugreinar. Heimilt er að fjárfesta í öðrum sjóðum ef fjárfestingastefna þeirra fullnægir kröfum og rúmast innan stefnu FSÍ.

4.8     Kröfur verða settar um lágmarksstærð fyrirtækja sem fjárfest er í. Stefnt er að áhættudreifingu í fjárfestingum m.t.t. atvinnugreina og fleiri þátta.

4.9     Ekki verða takmarkanir á eignarhlutdeild FSÍ í fyrirtækjum. Að jafnaði er þó horft til eignarhlutar á bilinu 20-55% sem gefi FSÍ nægileg og hæfileg áhrif á stjórnun viðkomandi hlutafélaga.

4.10   FSÍ kemur að rekstri viðkomandi fyrirtækja og stjórnun þeirra með beinni þátttöku í stjórn.

4.11   Framtakssjóði Íslands slhf. er heimilt að fjárfesta í fyrirtækjum með öðrum aðilum. Ákveði FSÍ að bjóða hluthöfum í FSÍ að gerast meðfagfjárfestar í einstökum verkefnum, skal hluthöfum boðin þátttaka í hlutfalli við hlutafjárframlag sitt.

5        ÁBYRGÐARAÐILI – FSÍ (FRAMTAKSSJÓÐUR ÍSLANDS) GP HF.

5.1     Ábyrgðaraðili (general partner) Framtakssjóðs Íslands slhf. verður FSÍ (Framtakssjóður Íslands) GP hf., kt. 491109-2110, sem er einkahlutafélag skráð og stofnað í Reykjavík í samræmi við íslensk lög og reglur.

5.2     Stjórn FSÍ GP hf. skal skipuð allt að sjö mönnum og allt að fjórum til vara. Stjórnin tekur ákvarðanir fyrir hönd Framtakssjóðs Íslands slhf., sem er sjálfstæður lögaðili. FSÍ GP hf. er ábyrgur fyrir að leita og kanna áreiðanleika nýrra fjárfestinga, meta, hafa eftirlit og eftirfylgni með þeim og sjá um upplausn eigna Framtakssjóðs Íslands slhf., auk þess að sjá um daglegan rekstur og stjórnun hans.

6        FJÁRFESTINGARLOFORÐ

6.1     Framtakssjóði Íslands slhf. er heimilt að kalla inn allt að kr. 4.500.000.000 af fjárfestingarloforðum til þess að styðja við skuldbindingar sem tengjast IEI slhf. þ.m.t. að greiða upp lán sem hvíla á Icelandic Group Investment ehf. og styðja rekstur þess.

7        FJÁRFESTING Í FRAMTAKSSJÓÐI ÍSLANDS SLHF.

7.1     FSÍ GP hf. hefur fjárfest í Framtakssjóði Íslands slhf. fyrir 4 milljónir króna.

7.2     Aðrir aðilar skuldbinda sig til að fjárfesta í Framtakssjóði Íslands slhf. með hlutafjáraukningu svo sem kemur fram í áskriftarskrám. Reynist ekki unnt að finna fjárfestingarverkefni fyrir Framtakssjóð Íslands slhf. á starfstímanum sem nemur heildarhlutafjárloforðum lækka þessar fjárhæðir hlutfallslega.

7.3     Lágmarksfjárfesting hvers aðila að Framtakssjóði Íslands slhf. er kr. 50.000.000, að undanskildum FSÍ GP hf., en framlag hans miðast við kr. 4.000.000. Stjórn FSÍ GP hf. er heimilt að veita undanþágu frá þessu lágmarki ef félagið telur ástæðu til.

7.4     Er stjórnin hefur ákveðið hlutafjáraukningu skal tilkynning þess efnis (innköllun) vera send hluthöfum með tölvupósti eða faxi þangað sem hluthafar skulu gefa upp. Með tilkynningu sem send er hluthöfum um hlutafjáraukningu skulu fylgja nauðsynlegar upplýsingar um réttindi og skyldur þeirra í tengslum við áskrift.

7.5     Hluthafar samþykkja að nýta sér forgangsrétt sinn að áskrift hluta og er þeim skylt að skrá sig fyrir nýjum hlutum í hvert sinn sem stjórnin ákveður hlutafjáraukningu, með áskrift að þeim hlutum sem lagt er til að útgefnir verði í sama hlutfalli og það hlutafé sem þeir eru skráðir fyrir og veita þeir stjórn félagsins hér með óafturkallanlegt umboð til að skuldbinda hluthafa með áskriftinni skv. áskriftarskrá þar sem fram kemur hámarksfjárfesting einstakra hluthafa.

7.6     Ekki má greiða fyrir nýja hluti með skuldajöfnuði, eða á nokkurn annan hátt en með reiðufé. Áskrift að nýjum hlutum skal skráð á áskriftaskrá, sem undirrituð skal af stjórn félagsins.

7.7     Hluthafar eru ekki skuldbundnir til að taka þátt í hlutafjáraukningu umfram það sem þeir hafa skuldbundið sig til í áskriftarskrá. Stjórn skal heimilt að auka hlutafé til að mæta þörf fyrir hlutafjáraukningu skv. grein 6.1.

8        INNKÖLLUN FJÁRMUNA

8.1     Eftir því sem Framtakssjóður Íslands slhf. ræðst í fjárfestingar verða fjárfestingarloforð innheimt af hluthöfum pro rata, nema af FSÍ GP hf. Innkallanir fyrir nýfjárfestingar er hægt að framkvæma til 28. febrúar 2015. Greiðslur skal inna af hendi eigi síðar en 20 dögum eftir að FSÍ GP hf. hefur farið fram á það.

8.2      FSÍ GP hf. hefur einnig heimild til að innheimta fjárfestingarloforð til að tryggja að nægilegt handbært fé sé fyrir hendi í Framtakssjóði Íslands slhf. til 12 mánaða reksturs og annars tilfallandi kostnaðar. Slík innköllun skal þó ekki leiða til þess að handbært fé nemi hærri upphæð en 10% af fjárfestingarloforðum.

9        GREIÐSLUFALL

9.1     Hluthafa ber að greiða fjármuni inn til Framtakssjóðs Íslands slhf. í samræmi við fjárfestingarloforð sín, eftir því sem FSÍ GP hf. óskar eftir. Nú stendur hluthafi ekki við þessa skuldbindingu, þrátt fyrir að FSÍ GP hf. hafi skorað á hluthafann að greiða fjármuni inn til Framtakssjóðs Íslands slhf. í samræmi við fjárfestingarloforð sín og gefið honum mánaðar frest til þess með sannanlegum hætti. Við þetta minnkar eignarhlutur vegna fyrri fjárfestingar hluthafans um 50% og fellur sá eignarhlutur til Framtakssjóðs Íslands slhf. og jafnframt missir hluthafi rétt til hagnaðar af fjárfestingum eftir greiðslufallið. Þetta skilur hluthafann ekki undan greiðslu á sínum hluta í umsýsluþóknun Framtakssjóðs Íslands slhf. Komi til greiðslufalls er FSÍ GP hf. heimilt að bjóða öðrum fjárfestum að nýta sér hið óefnda fjárfestingarloforð.

10      AÐRIR FJÁRFESTAR Í FRAMTAKSSJÓÐI ÍSLANDS SLHF.

10.1   Þátttaka annarra en lífeyrissjóðanna í fjárfestingu í Framtakssjóði Íslands slhf. er möguleg með heimild FSÍ GP hf.  Öðrum fagfjárfestum en lífeyrissjóðum verður síðar heimilt að gerast hluthafar í Framtakssjóði Íslands slhf., enda standist þeir allar kröfur sem eðlilegt er að gera til fagfjárfesta. Samanlagður hlutur annarra fagfjárfesta skal þó aldrei verða meiri en 49% hlutafjár í Framtakssjóði Íslands slhf.

11      GILDISTÍMI

11.1   Framtakssjóður Íslands slhf. skal starfræktur allt til 28. febrúar 2019. Stjórn FSÍ GP hf. er þó heimilt að lengja líftíma sjóðsins tvisvar sinnum, um eitt ár í senn. Starfrækslutími getur því að hámarki varað til 28. febrúar 2021.

12      FJÁRFESTINGATÍMABIL

12.1   Gert er ráð fyrir að nýfjárfestingum verði lokið fyrir 28. febrúar 2015. Viðaukafjárfestingar geta orðið allt til loka starfstíma Framtakssjóðs Íslands slhf. Fjárfestingarloforð eru bindandi allan starfstíma Framtakssjóðs Íslands slhf.

13      LOKANIR

13.1   Framtakssjóður Íslands slhf. er lokaður fyrir nýjum fjárfestum, öðrum en þeim sem kaupa hluti af núverandi hluthöfum.

14      VIÐAUKAFJÁRFESTINGAR

14.1   Eftir að fjárfestingatímabili lýkur er Framtakssjóði Íslands slhf. heimilt að ráðast í frekari fjárfestingar ef það er til þess fallið að vernda eða auka verðgildi eldri fjárfestinga félagsins. Slíkar fjárfestingar mega þó ekki nema hærri upphæð en þeim fjárfestingarloforðum sem ekki hefur verið kallað eftir.

15      TAKMARKANIR Á STÆRÐ FJÁRFESTINGA

15.1   Engin ein fjárfesting má nema meiru en 15% af heildarfjárfestingarloforðum Framtakssjóðs Íslands slhf. nema með sérstakri samþykkt ráðgjafaráðs.

16      RÁÐGJAFARÁÐ

16.1   Stjórn Framtakssjóðs Íslands GP hf. skipar ráðgjafaráð í kjölfar aðalfundar ár hvert. Hver hluthafi FSÍ slhf. skal tilnefna einn fulltrúa í ráðið og annan til vara. Hluthafi getur hvenær sem er skipt um aðal- eða varamann sinn í ráðinu en skiptin taka ekki gildi fyrr en stjórn Framtakssjóðs Íslands GP hf. berst tilkynning þar um. Ekki er heimilt að tilnefna stjórnar- og varastjórnarmenn í ráðgjafaráðið.

16.2   Ráðgjafaráðið er umsagnaraðili um fjárfestingastefnu sem stjórn sjóðsins setur. Það fjallar um málefni er varða túlkun þessara skilmála eða mál sem skapað gætu hagsmunaárekstra. Ráðgjafaráðið fjallar ekki um einstakar fjárfestingar. Stjórn FSÍ GP hf. getur auk þess óskað eftir að ráðgjafaráðið fjalli um önnur mál er varða Framtakssjóð Íslands GP hf. og Framtakssjóð Íslands slhf.

16.3   Ráðgjafaráðið skal kjósa sér formann og varaformann úr sínum hópi. Á fundum ráðsins skal rituð fundargerð um það sem fram fer. Að öðru leyti setur ráðgjafaráð sér starfsreglur. Aðalfundur og hluthafafundur Framtakssjóðs Íslands GP hf. getur ákveðið að fela ráðgjafaráðinu tiltekin verkefni, svo sem að undirbúa tillögur fyrir aðalfund og/eða hluthafafund Framtakssjóðs Íslands GP hf. og Framtakssjóð Íslands slhf.

16.4   Skrifstofa Framtakssjóðs Íslands GP hf. annast alla umsýslu vegna starfa ráðgjafaráðsins.

16.5   Ráðgjafaráðið kemur saman þegar stjórn Framtakssjóðs Íslands óskar en skal auk þess kallað saman komi fram beiðni frá 1/5 ráðgjafaráðsmanna eða frá hluthafa/hluthöfum sem standa samtals að baki 1/5 af fjárfestingarloforðum Framtakssjóðs Íslands slhf., eða ef fram kemur krafa frá hluthafa um að ráðið fjalli um tiltekið mál vegna túlkunar samningsins eða hagsmunaárekstra.

17      LÁN OG ÁBYRGÐIR

17.1   Framtakssjóður Íslands slhf. má taka lán, samkvæmt ákvörðun stjórnar FSÍ GP hf., til að brúa fjárþörf Framtakssjóðs Íslands slhf. ef til þess kemur að ráðast þurfi í fjárfestingu áður en fjármunir hafa borist í samræmi við fjárfestingarloforð. Heildarskuldsetning Framtakssjóðs Íslands slhf. og/eða ábyrgðir mega þó ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur 10% af heildarfjárfestingarloforðum á hverjum tíma.

17.2   Einnig má Framtakssjóður Íslands slhf. gangast í ábyrgðir eða veita fjárhagslega fyrirgreiðslu:

a) félögum í eignasafni Framtakssjóðs Íslands slhf. eða lögaðilum sem tengjast fyrirtækjaþróun þeirra félaga,

b) til þess að greiða kostnað við rekstur Framtakssjóðs Íslands slhf.

18      ÚTBORGANIR

18.1    Afrakstur (sölutekjur að frádregnum beinum kostnaði vegna sölu) af sölu eigna Framtakssjóðs Íslands slhf., arðgreiðslum og/eða fjármagnstekjum greiðist hluthöfum með eftirgreindum hætti í hlutfalli við skráða eignarhluti þeirra í sjóðnum: Útborganir skulu ákvarðaðar sér fyrir hverja fjárfestingu. Við hverja útborgun skulu hluthafar fá greiðslu í formi lækkunar á hlutafé, annars vegar, og í formi arðgreiðslu, hins vegar, í þeim hlutföllum sem höfuðstóll, þ.e. kaupverð seldra hluta, annars vegar, og hagnaður, þ.e. afrakstur að frádregnu upphaflegu kaupverði, af sölu þeirra, hins vegar, teljast vera í söluverðinu. Að því marki sem lagaskilyrði til úthlutunar arðs eru ekki til staðar, og fyrirséð er að þau verði ekki til staðar innan fjögurra vikna frá því útborgun getur farið fram, skal afraksturinn greiddur í formi lækkunar á hlutafé. Skapist lagaskilyrði síðar til úthlutunar arðs skal við síðari útborganir til hluthafa auka við arðgreiðslur eftir því sem unnt er. Þetta gildir þó ekki ef viðkomandi arðsgrundvöllur er vegna gengishækkunar óseldra hluta sjóðsins í skráðum eða óskráðum félögum. Útborganir skulu eiga sér stað eins fljótt og hægt er þegar afrakstur tiltekinna eigna liggur fyrir og greiðslur hafa borist. Greiðslur vegna afraksturs skulu renna til hluthafa í réttum hlutföllum við eign þeirra í FSÍ slhf. og IEI slhf. á þeim tíma sem ákvörðun um greiðslu er tekin.

18.2  Útgreiðslur skulu vera í formi reiðufjár eða skráðum verðbréfum, nema við slit Framtakssjóðs Íslands slhf., en þá geta útgreiðslur verið í formi óskráðra verðbréfa. Í því tilviki skal fá óvilhallan aðila til að meta verðmæti þeirra. Þrátt fyrir framangreint er stjórn ábyrgðaraðilans heimilt að ákveða útgreiðslur í formi eignarhluta í óskráðum félögum, enda samþykki móttakandi slíkt greiðsluform.

19      FRAMSAL EIGNARHLUTA OG AFTURKÖLLUN

19.1    Hluthafi má selja, veðsetja eða framselja hlut sinn í FSÍ slhf. með heimild stjórnar FSÍ GP hf., og að uppfylltum skilyrðum gr. 10.1 um nýja hluthafa.

19.2.  Sá sem framselur hlut sinn í Framtakssjóði Íslands slhf. skal jafnframt framselja sama aðila samsvarandi hlut í FSÍ GP hf.

19.3   Við framsal hlutar skuldbindur framseljandi sig til þess að vera áfram aðili að samningi þessum og ábyrgist að framsalshafi efni skuldbindingar sínar samkvæmt ákvæðum hans, sbr. grein 8.1, og haldi öðrum hluthöfum skaðlausum af broti framsalshafa á skuldbindingum sínum samkvæmt samningi þessum. Stjórn FSÍ (Framtakssjóðs Íslands) GP hf., sem er ábyrgðaraðili Framtakssjóðs Íslands slhf., getur þó heimilað að framseljandi ábyrgist ekki að framsalshafi efni skuldbindingar sínar við framsal.

19.4   Allar tilraunir til framsals sem ekki eru í samræmi við samning þennan skulu vera ógildar og að engu hafandi, og skal félagið ekki veita gildi neinu framsali sem fram hefur farið í bága við ákvæði þessarar greinar eða nokkurt annað beint ákvæði samnings þessa, og skal það ekki láta neinar breytingar á eigendaskráningu hluta koma fram í bókum sínum í kjölfar slíkrar framsalstilraunar.

20      UMSÝSLUKOSTNAÐUR

20.1   Framtakssjóður Íslands slhf. greiðir FSÍ GP hf. útlagðan kostnað við rekstur sjóðsins.

20.2   Umsýslukostnaður er greiddur af handbæru fé Framtakssjóðs Íslands slhf. Reynist þörf á má FSÍ GP hf. innheimta fjárfestingarloforð til greiðslu umsýslukostnaðar.

21      GREIÐSLUR FYRIR ÞJÓNUSTU FSÍ GP HF.

21.1   FSÍ GP hf. kann að fá greiðslur frá þeim fyrirtækjum sem fjárfest er í, t.d. þóknanir vegna stjórnarsetu. FSÍ GP hf. er heimilt að halda slíkum greiðslum til greiðslu kostnaðar af umsjón og rekstri Framtakssjóðs Íslands slhf.

22      STOFNKOSTNAÐUR

22.1   Framtakssjóður Íslands slhf. skal bera allan kostnað við stofnun félagsins, svo sem lögfræðikostnað, gjöld til hins opinbera, gjöld til milligönguaðila við öflun fjárfestingarloforða og annan kostnað sem eðlilegt má telja að sé hluti af því að koma félaginu á laggirnar.

23      ANNAR KOSTNAÐUR

23.1   Framtakssjóður Íslands slhf. mun greiða allan kostnað af umsjón og rekstri Framtakssjóðs Íslands slhf. og FSÍ GP hf., svo sem laun starfsmanna, húsaleigu og almennan stjórnunarkostnað. Framtakssjóður Íslands slhf. mun greiða beinan kostnað við kaup og sölu á fjárfestingunum, þ.m.t. söluþóknun, opinber gjöld, kostnað vegna samningsgerðar, málsvarnarlaun, skaðabætur og kostnað vegna lokunar eða slita Framtakssjóðs Íslands slhf. Þá mun Framtakssjóður Íslands slhf. einnig greiða kostnað vegna vanefnda á fjárfestingarloforðum, kostnað vegna endurskipulagningar eða breytinga á högum Framtakssjóðs Íslands slhf.

24      SKATTALEG MÁL

24.1   Framtakssjóður Íslands slhf. er ekki sjálfstæður skattaðili. Hverjum hluthafa fyrir sig ber að standa skil á sköttum og öðrum opinberum gjöldum vegna starfsemi Framtakssjóðs Íslands slhf. eins og skattskylda hvers myndast skv. skattalögum.

25      BÓKHALDSSKYLDA

25.1   Framtakssjóður Íslands slhf. skal í bókhaldi sínu halda reikning fyrir hvern einstakan hluthafa, þar sem fram koma fjárfestingarloforð, innborganir og útgreiðslur og áfallinn kostnaður viðkomandi hluthafa.

26      UPPLÝSINGASKYLDA

26.1   Árlega mun Framtakssjóður Íslands slhf. senda hluthöfum endurskoðaða ársreikninga. Ársfjórðungslega munu hluthafar hafa aðgang að óendurskoðuðum ársfjórðungsuppgjörum. Að auki mun Framtakssjóður Íslands slhf. útvega hluthöfum allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að þeir geti innt af hendi upplýsingaskyldu við yfirvöld, þ.m.t. skattframtöl og upplýsingar til Fjármálaeftirlits.

27      TAKMÖRKUN ÁBYRGÐAR

27.1   Hluthafar Framtakssjóðs Íslands slhf. fallast á að FSÍ GP hf. og starfsmenn FSÍ GP hf. og tengdir aðilar séu ekki skaðabótaskyldir gagnvart Framtakssjóði Íslands slhf. eða hluthöfum Framtakssjóðs Íslands slhf. vegna gerða sinna eða þess sem þeir hafa látið ógert nema um sé að ræða fjársvik, vísvitandi brot eða stórkostlega vanrækslu. Einnig skal FSÍ GP hf. og starfsmenn þess ekki vera bótaskyldir vegna mistaka eða misgjörða tengdra aðila eins og verðbréfamiðlara eða annarra sem starfa að hluta til í umboði Framtakssjóðs Íslands slhf. eða FSÍ GP hf. Hluthafar eru ekki ábyrgir gagnvart Framtakssjóði Íslands slhf. umfram þau fjárfestingarloforð sem þeir hafa gefið.

28      LÖG SEM UM SAMNINGINN GILDA OG LAUSN DEILUMÁLA

28.1   Þar sem samningur þessi kveður ekki á um hversu með skuli fara skulu ákvæði laga nr. 2 frá 1995 um hlutafélög og önnur viðeigandi íslensk lög gilda.

28.2   Hluthafar skulu leitast við að sætta sérhvern ágreining í góðri trú. Geti þeir ekki leyst ágreining í góðri trú getur hluthafi lagt deiluefnið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.

29      HEILDARSAMNINGUR

29.1   Samningur þessi hefur að geyma alla þá skilmála sem aðilarnir hafa orðið ásáttir um og efni hans varða, og kemur í stað allra samninga, umleitana, bréfaviðskipta, skuldbindinga og orðsendinga aðilanna, skriflegra og munnlegra, sem á undan hafa farið eða komið til um leið um það efni. Nýir hluthafar í Framtakssjóði Íslands slhf. skulu sjálfkrafa gerast aðilar að samningi þessum.

30      TILKYNNINGAR

30.1   Allar tilkynningar og orðsendingar samkvæmt samningi þessum skulu veittar skriflega og afhentar viðkomandi aðila eða sendar með flugpósti í ábyrgð, tölvupósti eða bréfsíma á heimilisfang þess aðila, bréfsímanúmer hans eða tölvupóstfang sem tilgreint er í grein 30.2. Sé ekki kveðið á um annað í samningi þessum skal litið svo á að hver tilkynning eða önnur orðsending sé gild eða fram komin (i) á viðtökudegi, hafi hún verið handfalin, (ii) átta vinnudögum eftir sendingu, hafi tilkynningin verið send með ábyrgðarpósti í flugi, eða (iii) einum vinnudegi frá sendingu, hafi hafi hún verið send með tölvupósti eða bréfsíma með staðfestingu á móttöku.

30.2   Utanáskrift tilkynninga og orðsendinga skal vera eftirfarandi:

FSÍ (Framtakssjóður Íslands) GP hf.

Skilmálar þessir eru frá 8.12.2009 með breytingum sem samþykktar voru á hluthafafundi félagsins 07.06.2012.
Viðauki var síðan gerður á skilmálunum á hluthafafundi þann 28. nóvember 2013 þegar ákveðið var að skipta sjóðnum uppí tvö sjálfstæð samlagshlutafélög á grundvelli reglna IX. kafla um hlutafélög nr. 2/1995. Markmiðið með breytingunni er var að aðreina tiltekna erlenda eign í eignasafni félagsins og stofna um það nýtt félag IEI slhf.