Brynjólfur Bjarnason, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands hefur óskað eftir því við stjórn sjóðsins að láta af störfum frá og með næsta
aðalfundi FSÍ 27. mars næstkomandi. Brynjólfur kom til starfa í byrjun árs 2012 og hefur leitt FSÍ í gegnum kaup og sölu fyrirtækja á tímabilinu, og hefur starfsemi sjóðsins skilað eigendum góðri arðsemi og er útlit fyrir að árangur verði áfram góður.
Brynjólfur segir þá ákvörðun að hætta störfum eiga sér nokkurn aðdraganda. „Ég á að baki langa starfsævi í atvinnulífinu og hef tekist á við mörg spennandi og krefjandi verkefni. Fyrir það er ég þakklátur. Tíminn hjá Framtakssjóðnum hefur verið sérlega ánægjulegur og árangursríkur og ég hef átt gott samstarf við þá sem tengjast starfseminni. Ég á stóra og góða fjölskyldu og mörg áhugamál og því varð sú löngun að vera herra eigin tíma sífellt áleitnari.“
Stjórn Framtakssjóðsins hefur fallist á beiðni Brynjólfs. Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands, segir eftirsjá í Brynjólfi. „Ráðning Brynjólfs var farsæl fyrir Framtakssjóðinn. Stöðugleiki og góður árangur hefur einkennt tíma hans hjá sjóðnum. Stjórnin þakkar Brynjólfi vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni. Enda þótt Brynjólfur láti nú af föstu starfi vona ég að íslenskt atvinnulíf fái í einhverju notið krafta hans og reynslu í framtíðinni.“