FSÍ eignaðist 81% hlut í Icelandic Group í ágúst 2010. Sjóðurinn átti að auki forkaupsrétt á 19% frá Landsbankanum. Félagið var í yfirskuldsett og átti í fjármögnunarvanda.

Næstu misseri fór fram endurskipulagning á rekstri og efnahag  um leið og einstaka einingar voru seldar út úr samsteypunni.  Þannig var í júní 2011 gengið frá sölu á starfsemi Icelandic Group í Þýskalandi og Frakklandi til erlendra fjárfesta og í nóvember 2011 var starfsemin í Bandaríkjunum og tengd starfsemi í Asíu seld til kanadíska félagsins, High Liner Foods.

Lögð var áhersla á að tryggja eignarrétt og stjórn FSÍ á helstu vörumerkjum Icelandic Group en við kaupin fékk High Liner Group nýtingarrétt á þeim til sjö ára. Með ofangreindum viðskiptum varð skuldsetning félagsins viðunandi og gaf rými í frekari rekstrarlega endurskipulagningu á einstaka dótturfélögum og móðurfélaginu á Íslandi.

Á árinu 2015 var sú stefna tekin að selja Icelandic Group í einingum frekar en í heilu lagi en þannig tókst að auka virði félagsins umtalsvert. Samstarf og samlegðaráhrif milli félaga samstæðunnar var nánast engin. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að einfalda starfsemi Icelandic Group á Íslandi og færa dótturfélög Icelandic Group beint undir FSÍ. Störf forstjóra, aðstoðarforstjóra og annarra stjórnenda voru lögð niður. Á þessum tíma störfuðu hjá félaginu á heimsvísu um 1.600 manns, þar af um það bil 20 starfsmenn í höfuðstöðvum þess.

Virðisaukning Ielandic Group var umtalsverð

Frá því að þessi ákvörðun var tekin hefur starfssemi félagsins í Asíu, Iberica á Spáni, Nýfiskur í Sandgerði, Gadus í Belgíu verið seld til íslenskra aðila tengdum sjávarútvegi en öll þessi félög vinna með íslenskt hágæða hráefni.

Í nóvember 2017 var  Seachill í Bretlandi selt til Hilton Food Group, bresks kjötvinnslufélags, skráð á hlutabréfamarkað í Bretlandi.

Eitt félag er óselt en það er ITH (Icelandic Trademark Holding) en snemma árs 2016 var eignarhald á vörumerkjum félagsins fært í sérstakt vörumerkjafélag ITH sem sér um markaðssetningu, eftirlit og þjónustu við vörumerkin. Unnið er að framtíðarstefnu og sýn fyrir þetta félag fyrir sölu.