Brim hf og Icelandic Group hafa undirritað samning um kaup Brims á starfsemi Icelandic Group í Asíu. Með kaupunum fylgir Brim vörum sínum lengra inn á Asíumarkað. Sala Icelandic Group er rökrétt skref í stefnu félagsins að starfa sem næst neytendum á mörkuðum í Vestur-Evrópu.
Icelandic Group hefur um all langt skeið rekið starfsstöð í Asíu og hafa 20 starfsmenn séð um miðlun sjávarafurða félagsins fyrst og fremst til stórnotenda og heildsala.
Icelandic Group dró sig út úr sambærilegri starfsemi í Noregi árið 2013, en hefur á undanförnum árum dregið markvisst úr þeim þætti starfseminnar sem lítur að miðlun sjávarfangs milli framleiðanda og heildsala. Þess í stað hefur Icelandic Group styrkt starfsemi í framleiðslu fyrir veitinga- og hótelmarkað og til stórmarkaða, m.a. með kaupum á Gadus í Belgíu árið 2013 sem er annar stærsti söluaðili sjávarfangs inn á smásölumarkað í Belgíu
Brim hefur verið stór viðskiptavinur Icelandic Group á þessum mörkuðum og með þessum kaupum færist Brim sem framleiðandi sjávarafurða nær markaði með beinni sölu til dreifingaraðila á mörkuðum í Asíu.
Vörumerki félagsins, Icelandic Seafood, fylgir ekki með í kaupum Brims á starfsemi félagsins í Asíu.
Árni Geir Pálsson, forstjóri Icelandic Group: „Ég lít á þetta sem rökrétt skref í starfsemi Icelandic Group. Undanfarin ár höfum við lagt aukna áherslu á að vera markaðsdrifið fyrirtæki, stutt við og fjárfest í eigin vörumerkjum, og færa starfsemi okkar eins nálægt endanlegum neytendum og kostur er. Ég tel að þetta skref muni reynast bæði Icelandic Group og íslenskum sjávarútvegi farsælt.“
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brim: „Þróun í sjávarútvegi undanfarin ár hefur verið sú að útgerðarfyrirtæki færi sig nær markaðnum til að skilja betur þarfir hans og auka þannig verðmæti sjávarafurða. Við sjáum tækifæri í því að efla starfsemina í Asíu og auka verðmæti íslenskra sjávarafurða.“
Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands: „Á undanförum misserum hefur verið unnið markvisst að því að auka verðmæti og efla sölu íslensks sjávarfangs til lengri tíma. Salan til Brims er rökrétt skref í þeirri vinnu.“
Frekari upplýsingar:
Árni Geir Pálsson, forstjóri Icelandic Group, sími 560 7800/eða agp@icelandic.is
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brim Seafood, sími 843-4210.
Um Icelandic Group:
• Icelandic Group er leiðandi sjávarútvegsfyrirtæki með meira en sjö áratuga sögu í alþjóðlegum sjávarútvegi. Velta Icelandic Group nam árið 2014 um €600 milljónum og eru starfsmenn ríflega 1.800 um allan heim.
• Icelandic Group er leiðandi söluaðili á smásölumarkað í Bretlandi, með 15% markaðshlutdeild og er annar stærsti söluaðili sjávarfangs inn á smásölumarkað í Belgíu. Auk þess er Icelandic Group leiðandi í sölu á léttsöltuðum þorski inná veitingahúsa- og hótelmarkað á Spáni, undir vörumerki Icelandic Seafood.
• Í Bandaríkjunum er félagið í samstarfi við Highliner Foods sem selur vörur undir sterku vörumerki Icelandic Seafood inn á hótel og veitingahúsamarkað.
Um Brim hf:
• Brim var stofnað 1998 en félagið og forverar þess eiga sér tæplega 60 ára sögu. Í dag er Brim hf með víðtæka starfsemi í sjávarútvegi á Íslandi. Það gerir út frystitogarana Brimnes RE 27, Guðmund í Nesi RE 13 og Kleifaberg RE 70.
• Brim hf. er auk þessa hluthafi í fyrirtæki á Grænlandi, Arctic Prime Fisheries (APF) sem gerir út uppsjávarskip, frystitogara, tvö línuskip og rekur tvær fiskvinnslur í góðu samstarfi við heimamenn og stjórnendur í landinu.
• Árið 2014 störfuðu um það bil 150 manns hjá Brimi og 150 hjá APF.