Fréttatilkynning frá Framtakssjóði Íslands og Bygma Gruppen A/S
Framtakssjóður Íslands hefur selt rekstur og eignir Húsasmiðjunnar til dönsku byggingavörukeðjunnar Bygma Gruppen A/S (Bygma). Söluferli Húsasmiðjunnar hefur staðið frá því í ágúst síðastliðnum og átti Bygma hæsta tilboð í fyrirtækið. Heildarvirði samningsins nemur um 3,3 milljörðum króna og felur hann í sér að Bygma tekur yfir vaxtaberandi skuldir Húsasmiðjunnar að upphæð um 2,5 milljarðar króna og greiðir að auki 800 milljónir króna í reiðufé. Bygma tekur einnig yfir aðrar skuldir Húsasmiðjunnar, alla ráðningarsamninga við starfsfólk, leigusamninga og aðrar rekstrartengdar skuldbindingar. Engar skuldir eru afskrifaðar í tengslum við söluna og verður starfsemin áfram undir merkjum Húsasmiðjunnar eftir að nýr eigandi tekur við fyrirtækinu 1. janúar 2012.
Bygma Gruppen A/S er danskt einkafyrirtæki sem selur og dreifir timbri og byggingavörum. Bygma starfrækir yfir 65 verslanir í Danmörku, Svíþjóð og Færeyjum með um það bil 1600 starfsmönnum. Vörusala Bygma á árinu 2011 nemur um €630 milljónum, sem nemur um 100 milljörðum íslenskra króna. Bygma var stofnað fyrir tæpum 60 árum og hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi.
Peter H. Christiansen, forstjóri Bygma Gruppen A/S:
Í kjölfar kaupa Bygma á Húsasmiðjunni þá er það okkur ánægja að tilkynna að við viljum styrkja og víkka út starfsemi Húsasmiðjunnar á Íslandi enn frekar. Við sjáum margt sameiginlegt með Húsasmiðjunni og Bygma, bæði með tilliti til hugmyndafræðinnar á bak við starfsemina og þeirrar fyrirtækjamenningar sem til staðar er í báðum fyrirtækjum. Kaupin á Húsasmiðjunni eru einnig mikilvægur liður í því að vinna eftir þeirri stefnu Bygma samstæðunnar að starfa á öllum Norðurlöndunum. Við hlökkum til þess spennandi verkefnis að vera virkur þátttakandi á markaðnum á Íslandi.”
Eitt af meginmarkmiðum með stofnun Framtakssjóðs Íslands var að taka þátt í og móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs. Með sölu á rekstri og eignum Húsasmiðjunnar til öflugs fyrirtækis á borð við Bygma er vel heppnaðri endurskipulagningu á rekstri Húsasmiðjunnar lokið.
Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands:
„Kaup Bygma á Húsasmiðjunni, sem er leiðandi verslunarfyrirtæki á Íslandi, fela í sér beina og mikilvæga erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Bygma á sér langa og farsæla rekstrarsögu og við erum þess fullviss að aðkoma þeirra að Húsasmiðjunni verði íslenskum neytendum og starfsfólki fyrirtækisins til hagsbóta. Það er afar mikilvægt fyrir starfsfólk Húsasmiðjunnar að nýr og öflugur eigandi sé kominn að félaginu til frambúðar. Þegar Framtakssjóðurinn keypti Húsasmiðjuna fyrir ári síðan þá lýstum við því yfir að það væri markmið okkar að selja Húsasmiðjunna í opnu ferli og við erum ánægð með að því markmiði hafi verið náð.”
Húsasmiðjan er eitt af stærstu þjónustu- og verslunarfyrirtækjum í byggingarvörum á Íslandi. Fyrirtækið er nú með um 450 starfsmenn og rekur 16 verslanir um allt land undir eigin merki og blómaverslanir undir merki Blómavals. Að auki rekur fyrirtækið heildsölurnar Ískraft og HG. Guðjónsson.
Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans veitti Framtakssjóði Íslands ráðgjöf við viðskiptin.
Upplýsingar frá Framtakssjóði Íslands: Afrakstur sölunnar mun renna til eigenda Framtakssjóðsins í samræmi við reglur og samþykktir sjóðsins. Ekki er á þessari stundu ljóst hversu há sú upphæð verður þar sem seljandi mun halda eftir ábyrgð á tveimur mögulegum skuldbindingum gagnvart íslenskum yfirvöldum, sem urðu til áður en FSÍ eignaðist fyrirtækið. Annars vegar er um að ræða mögulega sekt vegna meintra samkeppnislagabrota sem Samkeppniseftirlitið hefur til meðferðar frá fyrri tíð. Hins vegar er um að ræða mögulegra endurálagningu opinberra gjalda vegna meintra skattalagabrota sem rekja má til samruna eignarhaldsfélaga við Húsasmiðjuna á árunum 2003-2006.
Frekari upplýsingar:
Pétur Þ. Óskarsson, sími 863 6075, petur@framtakssjodur.is
Peter H. Christiansen, sími +45 4454 1700, phc@bygma.dk