Fréttatilkynning frá Framtakssjóði Íslands
Árið 2015 var sjötta starfsár Framtakssjóðs Íslands. Á árinu voru greiddir 2,1 milljarður til eigenda sjóðsins vegna sölu eignarhluta sjóðsins og hafa 33,8 milljarðar verið greiddir til eigenda. Áætlað gangvirði eigna Framtakssjóðsins var metið á a.m.k. 36,6 milljarðar króna í árslok 2015 og hagnaður af rekstri sjóðsins var 595 milljónir króna. Sjóðurinn fékk nýverið heimild Seðlabanka Íslands til að afhenda undirliggjandi eignir IEI beint til eigenda. Það samsvarar miðað við stöðu um síðustu áramót að eigendur IEI sem eru lífeyrissjóðir landsmanna fá til sín jafnvirði 12,6 milljarða í erlendum eignum.
Eignarhlutir sjóðsins í fyrirtækjum eru færðir á kostnaðarverði. Sjóðurinn hefur lagt mat á áætlað gangvirði eignarhluta félaga í eignasafni sjóðsins og er metið að það sé ekki undir 36,6 milljörðum króna, en bókfært verð sömu eigna er 20,4 milljarður króna. Áætlað virði miðast við niðurstöður virðisrýrnunarprófa undirliggjandi eigna. Bókfært virði IEI er 6,7 miljarðar króna en gangvirðismat um áramót var 12,6 milljarðar króna.
Þær breytingar urðu á eignasafni sjóðsins á árinu að seldur var 32% hlutur í Advania sem hvarf þar með úr eignasafni sjóðsins. Advania var sjöunda eign FSÍ sem sjóðurinn selur og innleysir hagnað af. Unnið er að úrvinnslu annarra eigna. Söluandvirði tveggja eigna sjóðsins er í tveimur félögum IEI slhf. sem hefur að geyma hluta söluandvirðis eigna Icelandic í USA og IEI II sem hefur að geyma m.a. söluandvirði eigna Promens. Undirliggjandi eignir þessara tveggja félaga eru vel dreifðir alþjóðlegir hlutabréfasjóðir sem herma alþjóðavísitölur hlutabréfa. Seðlabanki Íslands hefur veitt heimild til þess að undirliggjandi eignum IEI slhf. verði dreift beint til eigenda. Miðað við eignastöðu IEI slhf. um áramót mun FSÍ því færa til eigenda erlendar eignir sem eru að andvirði 12.6 milljarðar íslenskra króna.
Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands: „Starfsemi FSÍ gekk vel á árinu. Aðkoma sjóðsins sem virkur eigandi í fyrirtækjum hefur skilað eigendum hans verulegri arðsemi. Starfsemin einkenndist af því að eignum í eignasafni fer fækkandi og þar með umsvif sjóðsins. Heimild hefur fengist til að afhenda eigendum undirliggjandi eignir IEI slhf.. Með því mun sjóðurinn skila erlendum eignum beint til eigenda sinna og hefur því ekki aðeins náð hagnaði á fjárfestingar sínar, heldur einnig stuðlað að meiri áhættudreifingu í eignasafni eigendanna.“