Aðalfundur Framtakssjóðs Íslands var haldinn föstudaginn 5. maí. Á fundinum var samþykkt að greiddur yrði arður að fjárhæð kr. 7.000 milljónir til hlutafa. Að auki var samþykkt að hlutafé félagsins yrði lækkað um kr. 3.200.000 að nafnverði. Alls verða því greiddir 10,2 milljarðar króna til eigenda sjóðsins, sem eru að langstærstum hluta lífeyrissjóðir. Útgreiðslur skýrast aðallega af sölu á dótturfélögum Invent Farma á seinasta ári og sölu dótturfélaga innan Icelandic. Eftir þessar útgreiðslur hefur Framtakssjóður Íslands greitt alls 69,1 milljarð króna til hluthafa frá upphafi en kallað inn 43.3 milljarða.
Stjórn Framtakssjóðsins var endurkjörin á fundinum. Hana skipa Guðrún Björg Birgisdóttir, Helga Árnadóttir, Hjörleifur Pálsson, Sveinn Hannesson og Þorkell Sigurlaugsson sem er stjórnarformaður.