Árið 2013 var fjórða starfsár Framtakssjóðs Íslands og nam hagnaður af starfsemi sjóðsins 7.636 milljónum króna, samanborið við 6.111 milljónir króna árið áður. Heildareignir sjóðsins í árslok námu 35,9 milljörðum króna en þær voru 29,6 milljarðar á sama tíma 2012. Eigið fé í árslok var 32,2 milljarðar.
Eignarhlutir sjóðsins í fyrirtækjum eru færðir á kostnaðarverði nema eignarhlutir í skráðum félögum sem eru metnir á markaðsverði. Á árinu var erlend eign sjóðsins sem myndaðist við sölu erlendra eigna Icelandic, færð í sérstakan sjóð, IEI slhf. sem lýtur sömu stjórn og FSÍ slhf. Sjóðurinn hefur, í samvinnu við endurskoðendur félagsins, lagt mat á áætlað gangvirði eignarhluta félaga í eignasafni beggja sjóðanna og er metið að það sé ekki undir 53,6 milljörðum króna, en bókfært verð sömu eigna er 34 milljarðar króna. Áætlað virði miðast við niðurstöður virðisrýrnunarprófa undirliggjandi eigna
Þær breytingar urðu á eignasafni sjóðsins á árinu 2013 að 5% hlutur í Icelandair var seldur og einnig 24% hlutur í N1 til forkaupsrétthafa samhliða skráningu í Kauphöll Íslands. Eftir þessi viðskipti átti Framtakssjóðurinn í lok árs 7% í Icelandair sem selt var í byrjun þessa árs og 20,9% í N1. Þá keypti FSÍ 38% hlut í Invent Farma ehf. Alls hefur sjóðurinn fjárfest í níu félögum frá stofnun en sex voru í eignasafni sjóðsins í árslok 2013. Það eru: Advania, Icelandair, Icelandic, N1 og Promens. Andvirði innleystra eigna var ráðstafað til eigenda. Annars vegar með arðgreiðslu og hins vegar með lækkun hlutafjár. Alls voru ríflega 9 milljarðar króna greiddir til hluthafa Framtakssjóðsins vegna ársins 2013. Á aðalfundi sjóðsins í dag var samþykkt að greiða hluthöfum 6,6 milljarða í arð. Alls hefur sjóðurinn þá greitt 27,5 milljarða til eigenda sinna sem eru einkum lífeyrissjóðir landsmanna og Landsbankinn.
Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands: „Árið 2013 reyndist afar gott í rekstri Framtakssjóðsins. Aðkoma sjóðsins sem virkur eigandi í fyrirtækjum hefur skilað eigendum hans verulegri arðsemi. Innan eigendahópsins hafa verið viðraðar hugmyndir um að nýta þá reynslu og þekkingu sem byggst hefur upp inna sjóðsins til að mynda nýjan sjóð sem rekinn yrði af Framtakssjóði Íslands. Verkefnin framundan eru önnur en þau sem blöstu við þegar sjóðurinn var stofnaður. Nýjum sjóði yrði einkum ætlað að koma að stærri verkefnum sem krefjast virks eignarhalds svo sem fárfestingum í innviðum samfélagsins og stærri verkefnum þar sem kraftar sjóðsins og frumkvæði nýttust til útflutnings, gjaldeyrisöflunar og sóknar í atvinnumálum. Þessar hugmyndir eru á byrjunarstigi en ég tel ánægjuefni hversu vel hefur verið í þær tekið.“
Frekari upplýsingar:
Hafliði Helgason, Framtakssjóði Íslands, sími 864-6350.
Upplýsingar fyrir ritstjórn:
Um Framtakssjóð Íslands slhf.
Framtakssjóður Íslands er fjárfestingarsjóður í eigu sextán lífeyrissjóða, Landsbankans hf. og VÍS. Sjóðurinn sérhæfir sig í fjárfestingum og viðskiptaþróun fyrirtækja. Hlutverk hans er að taka þátt í uppbyggingu íslensks atvinnulífs og ávaxta fjármuni í samræmi við fjárfestingastefnu sjóðsins. Stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands er Þorkell Sigurlaugsson og framkvæmdastjóri Brynjólfur Bjarnason sem nú lætur af störfum. Við starfi hans tekur Herdís Dröfn Fjeldsted.
Framtakssjóður Íslands á eignarhluti í fimm fyrirtækjum:
Félag |
Eignarhlutur FSÍ |
Advania |
71,26% |
Icelandic Group |
100% |
Invent Farma |
38% |
N1 |
20,9% |
Promens |
49,5% |
Ársreikningur Framtakssjóðs Íslands slhf.
Ársreikningur Framtakssjóðs Íslands GP
Ársskýrsla Framtakssjóðs Íslands slhf. 2013 – flettiútgáfa