Framtakssjóður Íslands hefur komist að samkomulagi við AdvInvest um sölu á 32% hlut sjóðsins í Advania til þess síðarnefnda. Af þessu leiðir að AdvInvest er skuldbundið að bjóða til kaups þá hluta sem eftir standa af öðrum hluthöfum. Eftir kaupin verður Advania væntanlega að öllu leyti í eigu sænska félagsins AdvInvest.
Advania verður þó áfram íslenskt fyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi, enda leggurAdvInvest áherslu á að byggja upp starfsemi Advania á Íslandi auk þess að tvískrá félagið í kauphöll í Reykjavík og Stokkhólmi.
Við hlutafjáraukningu félagsins á síðasta ári framseldi Framtakssjóðurinn rétt sinn til aukningar til AdvInvest og skuldbatt sig til að tryggja þeim meirihluta með sölu eigin hluta. Með aukningunni styrktist fjárhagur félagsins, auk þess sem þekking og tengsl nýrra eigenda hafa nýst við uppbyggingu þess. AdvInvest tryggði hlutafjáraukningu félagsins og eignaðist í kjölfarið 58% hlut í félaginu.
„Okkar skoðun hefur ekkert breyst frá því í byrjun þegar við vildum kaupa alla hluti í fyrirtækinu, og nú eftir kynni okkar af fyrirtækinu hefur trú okkar styrkst. Við leggjum áfram áherslu á að byggja upp starfsemi Advania á Íslandi samhliða alþjóðlegri starfsemi félagsins. Þá er stefnt að því að Advania verði tvískráð í kauphöll á Íslandi innan tveggja ára og í kjölfarið í Stokkhólmi“, segir Thomas Ivarsson, stjórnarformaður Advania og einn eigenda.
Beringer Finance var ráðgjafi kaupenda í viðskiptunum.
„Framtakssjóður Íslands hefur undanfarin ár unnið að því að efla Advania og styrkja stoðir þess í samstarfi við aðra hluthafa. Innkoma nýrra fjárfesta í tveggja milljarða hlutafjáraukningu félagsins var mikilvægt skref í að efla félagið sem hefur skilað sér í verðmætara félagi. Samstarfið við þá hefur gengið vel og meðeigendur okkar sem kaupa allan hlut okkar í félaginu eru að okkar mati traustir eigendur sem vinna munu að framgangi félagsins í samræmi við þau markmið sem við höfum haft um að félagið verði á endanum skráð í kauphöll“, segir Herdís Fjeldsted framkvæmdastjóri FSÍ.