- Eignir sjóðsins eru metnar á 47,1 milljarð króna sem er 15,2 milljörðum króna hærra en bókfært verð
- Lokið var við kaup á hlut í N1 á tímabilinu og á Framtakssjóður nú 45% hlut í N1
- Unnið er að skráningu Vodafone á hlutabréfamarkað á síðari hluta ársins
- Rekstrarhagnaður FSÍ stafar af hækkun markaðsverðs eignarhlutar í Icelandair Group
Framtakssjóður Íslands skilaði 1.470 milljónum króna í hagnað á fyrstu 6 mánuðum ársins 2012. Rekstrarhagnaðurinn skýrist af hækkun markaðsverðs eignarhlutar sjóðsins í Icelandair Group. Eigið fé sjóðsins við lok tímabilsins nam 32,3 milljörðum króna.
Eignarhlutir sjóðsins í fyrirtækjum eru færðir á kostnaðarverði nema eignarhlutir í skráðum félögum sem eru færðir á markaðsverði. Því koma virðishækkanir óskráðra eigna ekki fram í rekstrarafkomu sjóðsins fyrr en við sölu eigna eða skráningu í kauphöll. Eina skráða félagið í eigu Framtakssjóðsins um þessar mundir er Icelandair Group. Verð á hlut í Icelandair Group var 6,61 kr. við lok tímabils. Stefnt er að skráningu Vodafone í kauphöll á þessu ári og fleiri félög í eigu sjóðsins verða skráð á árunum 2013 og 2014.
Sjóðurinn hefur, í samvinnu við endurskoðendur sjóðsins, lagt mat á áætlað gangvirði þeirra eignarhluta sem fjárfest hefur verið í og er metið að það sé ekki undir 47,1 milljarði króna en bókfært verð sömu eigna var 31,9 milljarðar króna. Áætlað virði miðast við niðurstöður virðisrýrnunarprófa undirliggjandi eigna.
Afkoma Framtakssjóðs Íslands á fyrstu 6 mánuðum ársins kom fram í árshlutareikningi sem lagður hefur verið fram í stjórn sjóðsins. Endurskoðaður ársreikningur fyrir árið 2012 verður birtur á heimasíðu Framtakssjóðsins á fyrsta ársfjórðungi 2013.