Framtakssjóður Íslands hefur skrifað undir samning um kaup á um 60% hlut í samheitalyfjafyrirtækinu Invent Farma ehf. Félagið á og rekur lyfjaverksmiðjur á Spáni.. Fyrirtækjaráðgjöf Straums var ráðgjafi Framtakssjóðs Íslands í viðskiptunum, en kaupsamningur er undirritaður með fyrirvara um niðurstöðu spænskra samkeppnisyfirvalda og mun sú niðurstaða liggja fyrir á næstu vikum. Kaupverðið er trúnaðarmál.
Invent Farma hefur verið í góðum rekstri og hafa erlendir sjóðir og lyfjafyrirtæki sýnt áhuga á kaupum á félaginu. Seljendur eru innlendir og erlendir fjárfestar, en um 85% hlutafjár var í eigu innlendra fjárfesta fyrir viðskiptin. Silfurberg ehf., í eigu Friðriks Steins Kristjánssonar, stofnanda Invent Farma og Omega Farma, verður áfram hluthafi í félaginu.
Invent Farma var stofnað þegar íslenskir fjárfestar keyptu lyfjaverksmiðjur á Spáni árið 2005 en rætur félagsins ná aftur til ársins 1937. Rekstur félagsins hefur gengið vel á undanförnum árum, en velta félagins á síðasta ári nam tæplega 84 milljónum evra og EBITDA hagnaður félagsins tæplega 21 milljón evra. Framleiðsla félagsins skiptist í samheitalyfjaframleiðslu og framleiðslu á virkum lyfjaefnum. Félagið markaðssetur og selur samheitalyf undir eigin vörumerkjum á Spáni, en selur lyf og virk lyfjaefni í heildsölu til fyrirtækja á öðrum mörkuðum. Sala félagsins er vel dreifð, bæði landfræðilega og eftir viðskiptavinum, sem dregur úr áhættu í rekstri félagsins. Spánn er stærsti markaður félagsins fyrir samheitalyf en Japan og Bandaríkin í virkum lyfjaefnum. Eignir félagsins nema 93 milljónum evra og er eigið fé 28 milljónir evra.
Fyrirtækið hefur á undanförnum árum lagt mikið upp úr rannsóknum og þróun sem hefur skilað sér í ríkulegri uppsprettu samheitalyfja og virkra lyfjaefna sem koma munu til framleiðslu hjá fyrirtækinu á komandi misserum. Félagið setur að meðaltali átta ný lyf á markað á ári, en áætlað er að 45 ný lyf komi frá fyrirtækinu á næstu fimm árum. Lykilstjórnendur félagsins munu starfa áfram hjá félaginu..
Ingi Guðjónsson, stjórnarformaður Invent Farma ehf.
„Rekstur Invent Farma hefur gengið mjög vel á undanförnum árum og við teljum að framtíð félagsins sé björt. Margir aðilar hafa sýnt félaginu áhuga frá því að söluferli hófst fyrir um einu ári síðan. Ég er mjög ánægður með að söluferlinu ljúki með þeim hætti að Invent Farma verði áfram að stærstum hluta í eigu íslenskra aðila.“
Nánari upplýsingar veitir
Hafliði Helgason, Framtakssjóði Íslands
email: haflidi@framtakssjodur.is
gsm: 8646350