– söluandvirði verður allt greitt til lífeyrissjóða og annarra eigenda sjóðsins
Framtakssjóður Íslands hefur selt 10% hlutafjár í Icelandair Group, alls 500 milljón hluti til breiðs hóps fagfjárfesta. Meðalverð á hlut var 5,423 krónur og nemur heildarsöluvirði hlutafjár því 2.711 milljónum króna. Eftir viðskiptin á Framtakssjóður Íslands um 950 milljón hluti í Icelandair Group, eða um 19% hlutafjár.
Framtakssjóðurinn samdi um kaup á um 30% hlut í Icelandair Group um mitt ár 2010. Alls keypti sjóðurinn um 1450 milljón hluti i tveimur útboðum fyrir samtals um 3,6 milljarða króna. Andvirði sölunnar nú rennur beint til lífeyrissjóðanna og annarra eigenda Framtakssjóðsins í samræmi við skilmála sjóðsins.
Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands: „Fjárfesting Framtakssjóðsins í Icelandair Group hefur reynst sjóðnum og eigendum hans afar hagstæð. Icelandair Group er mjög mikilvægt fyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu og fyrir hagkerfið í heild. Endurskipulagning félagsins er gott dæmi um hvernig vel getur tekist til við að tryggja rekstur lykilfyrirtækja í íslensku efnahagslífi með aðkomu fjárfesta. Við höfðum mikla trú á rekstri Icelandair Group og því stjórnendateymi sem stýrir félaginu. Allar áætlanir sem lagðar voru til grundvallar ákvörðuninni hafa gengið eftir og í raun betur en það. Icelandair Group verður áfram leiðandi fyrirtæki í íslenskri flug- og ferðaþjónustu og það eru mörg spennandi verkefni framundan hjá félaginu. Framtakssjóðurinn hyggst áfram taka þátt í því með öðrum hluthöfum og stjórnendum að þróa félagið og mæta nýjum tækifærum“.
Umsjón með sölu hlutafjárins hafði Verðbréfamiðlun Íslandsbanka. Hlutaféð var selt til breiðs hóps fagfjárfesta í áskriftasöfnun.