– söluandvirði verður allt greitt til lífeyrissjóða og annarra eigenda sjóðsins
Framtakssjóður Íslands hefur selt 7% hlutafjár í Icelandair Group, alls 350 milljón hluti. Meðalverð á hlut var 7,5 krónur og nemur heildarsöluvirði hlutafjár því 2.625 milljónum króna. Eftir viðskiptin á Framtakssjóður Íslands um 600 milljón hluti í Icelandair Group, eða um 12% hlutafjár.
Framtakssjóðurinn samdi um kaup á um 30% hlut í Icelandair Group um mitt ár 2010. Alls keypti sjóðurinn um 1450 milljón hluti i tveimur útboðum fyrir samtals um 3,6 milljarða króna. Andvirði sölunnar nú rennur beint til lífeyrissjóðanna og annarra eigenda Framtakssjóðsins í samræmi við skilmála sjóðsins.
Umsjón með sölu hlutafjárins hafði Straumur fjárfestingabanki.