– með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins
Framtakssjóður Íslands (FSÍ) og Kvos ehf. (Kvos) hafa skrifað undir samning um kaup Kvosar á Plastprenti ehf., sem er að fullu í eigu FSÍ. Samningurinn er niðurstaða opins söluferlis Plastprents sem Straumur fjárfestingarbanki annaðist fyrir FSÍ. Samningurinn er gerður með fyrirvörum, meðal annars um samþykki Samkeppniseftirlitsins og tekur ekki gildi fyrr en að lokinni umfjöllun þess.
Í apríl 2012 fól FSÍ Straumi fjárfestingarbanka að annast formlegt söluferli Plastprents. Söluferlið var opið öllum sem gátu sýnt fram á fjárfestingargetu, þekkingu og reynslu eða uppfylltu skilyrði um að geta talist fagfjárfestar. Aðilum sem sendu inn tilboð og uppfylltu skilyrði um þátttöku var boðið að halda áfram í öðru stigi söluferlisins. Í framhaldi var gengið til viðræðna við Kvos og hafa samningar nú tekist.
Um Plastprent
Plastprent ehf. var stofnað árið 1957 og hefur frá þeim tíma verið brautryðjandi í framleiðslu áprentaðra plastumbúða. Í dag starfa um 75 manns hjá félaginu og felur starfsemi þess í sér filmugerð, klisjugerð, prentun, lamineringu, pokagerð, endurvinnslu hráefnis og innflutning. Höfuðstöðvar félagsins eru í dag í 6.200 fermetra húsnæði við Fossháls í Reykjavík og auk þess er félagið með starfsstöð á Akureyri.
Um KVOS
Kvos er eignarhalds- og fjárfestingafélag í prentiðnaði og skyldum rekstri. Kvos varð til 1. janúar 2006 sem móðurfélag prentsmiðjunnar Odda, Gutenberg og Kassagerðarinnar. Markmið Kvosar er að auka arðsemi og samhæfni dótturfélaga og leita fleiri tækifæra á sérsviði félagsins, innanlands sem utan. Saga Kvosar hófst með stofnun prentsmiðjunnar Odda hf. 9. október 1943 og innan samstæðunnar urðu svo síðar fyrirtæki sem stofnuð voru fyrr, eins og Gutenberg frá 1904.
Um Framtakssjóð Íslands
Framtakssjóður Íslands er fjárfestingarsjóður í eigu sextán lífeyrissjóða, Landsbankans hf. og VÍS. Sjóðurinn sérhæfir sig í fjárfestingum og viðskiptaþróun fyrirtækja. Hlutverk hans er að taka þátt í uppbyggingu íslensks atvinnulífs og ávaxta fjármuni í samræmi við fjárfestingastefnu sjóðsins. Stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands er Þorkell Sigurlaugsson og framkvæmdastjóri Brynjólfur Bjarnason.
Frekari upplýsingar:
Pétur Þ. Óskarsson, sími 863 6075, petur@framtakssjodur.is
Baldur Þorgeirsson, sími 893 6533, baldur@kvos.is