Framtakssjóður Íslands slhf. (FSÍ) hefur lokið kaupum á 49,5% eignarhlut í Promens hf. Aðdragandi málsins er sá að fyrr á árinu gerði Horn fjárfestingarfélag hf. (Horn) samkomulag við FSÍ um kaup á 40% hlut í Promens og var þar jafnframt kveðið á um kauprétt FSÍ á 9,5% viðbótarhlut í félaginu. Samkomulagið var gert með fyrirvara um áreiðanleikakönnun á Promens, sem nú er lokið. FSÍ hefur ákveðið að nýta sér kauprétt sinn og hafa aðilar komist að endanlegri niðurstöðu um kaupverð hlutanna sem er 49,5 milljónir Evra, sem jafngildir um 7,9 milljörðum króna.
Eftir kaupin mun FSÍ eiga 49,5% hlut, Horn mun eiga um 49,8% hlut og lykilstarfsmenn Promens munu eiga um 0,7% hlut. Sem fyrr er stefnt er að skráningu Promens á hlutabréfamarkað á næstu tveimur til þremur árum. Hluti kaupverðs FSÍ (um 3,2 milljarðar króna) fer til kaupa á nýjum hlutum í Promens sem gefnir verða út í framhaldi af kaupunum og eru kaupin þannig fallin til að styrkja eiginfjárstöðu Promens.
Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri FSÍ, Jakob Sigurðsson, forstjóri Promens og Hermann Már Þórisson, framkvæmdastjóri Horns, skrifa undir samkomulagið á Sjávarútvegssýningunni.
Promens er leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í framleiðslu plastafurða og rekur 45 verksmiðjur í 19 löndum. Fyrirtækið framleiðir meðal annars umbúðir fyrir matvæli, snyrtivörur og lyf, auk íhluta fyrir bifreiðar, landbúnaðarvélar og þungavinnuvélar. Promens þjónar fyrirtækjum í fjölmörgum atvinnugreinum, s.s. matvinnslufyrirtækjum, efnaverksmiðjum, lyfjaframleiðendum og framleiðendum bifreiða og raftækja. Hjá samstæðu Promens starfa nú um 4.200 starfsmenn, þar af um 80 á Íslandi. Félagið rekur tvær verksmiðjur á Íslandi, Promens Dalvík og Promens Tempra.
Hermann Már Þórisson, framkvæmdastjóri Horns: „Horn hefur frá árinu 2008 verið í hluthafahópi Promens, stutt við bakið á félaginu og aukið jafnt og þétt við eignarhlut sinn. Horn átti fyrir söluna til FSÍ um 99% eignarhlut, eftir makaskiptakaupsamning við Atorku Group hf. í byrjun ársins 2011. Fjárfestingarstefna Horns gerir almennt ráð fyrir því að félagið sé minnihlutafjárfestir í þeim verkefnum sem fjárfest er í, en í nánu samstarfi við öfluga meðfjárfesta. Horn hefur litið á fjárfestingu sína í Promens sem umbreytingarfjárfestingu og sér mikla möguleika í náinni framtíð fyrir Promens.“
Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri FSÍ, Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður FSÍ og Jakob Sigurðsson, forstjóri Promens við undirritun samkomulags um kaup FSÍ í Promens.
Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri FSÍ: „Við höfum mikla trúa á framtíðarmöguleikum Promens. Vöruframboð félagsins er mjög breitt og Promens er með starfsemi á Íslandi og víða erlendis. Um 3,2 milljarðar af fjárfestingu FSÍ verða nýttir til að styrkja félagið enn frekar og verður fjármagnið meðal annars nýtt til að stækka verksmiðju félagsins á Dalvík um 50%. Við hlökkum til að vinna náið með öðrum hluthöfum, stjórnendum og starfsfólki að því að þróa reksturinn og efla starfsemina.“
Jakob Sigurðsson, forstjóri Promens: „Við bjóðum Framtakssjóð Íslands velkominn í hluthafahóp félagsins. Það er afar mikilvægt fyrir Promens að hafa sterka bakhjarla og við hlökkum til að vinna með hluthöfum að því að efla fyrirtækið enn frekar. Rekstur félagsins er í góðu jafnvægi; góður vöxtur hefur verið í sölu það sem af er þessu ári og horfur fyrir síðari hluta ársins eru ágætar.“
Rekstur Promens hefur gengið vel á síðustu misserum. Velta Promens á árinu 2010 nam 584 milljónum evra á árinu 2010 samanborið við 512 milljónir evra á árinu 2009. EBITDA framlegð félagins án einskiptiskostnaðar nam 51,9 milljónum evra á árinu 2010 samanborið við 35,8 milljónir evra á árinu 2009. Hagnaður ársins 2010 var 11,7 milljónir evra (2,1 milljónir af reglulegri starfsemi) samanborið við 30,6 milljón evra tap á árinu 2009. Þá hefur rekstur á fyrsta árshelmingi 2011 gengið vel, þar sem heildarsala hefur verið 339 milljónir evra, EBITDA framlegð 29,7 milljónir evra og hagnaður 3,5 milljónir evra. Eftir fjárfestingar Horns og FSÍ í félaginu mun eiginfjárhlutfall félagsins vera um 32,3%. Sjá nánar í töflunni hér að neðan, en tekið skal fram að inn í fjárhæðum varðandi 2011 hefur verið tekið tillit til fjárfestingar Framtakssjóðsins:
Milljónir EUR | 2009 | 2010 | 6 mán. 2010 |
6 mán. 2011 |
Heildarsala | 512 | 584 | 291 | 339 |
EBITDA | 24,0 | 48,3 | 24,6 | 27,2 |
Hlutfall af sölu | 4,7% | 8,3% | 8,5% | 8,0% |
Hagnaður/Tap | (30,6) | 2,1 | (0,4) | 3,5 |
Heildareignir | 494 | 477 | 522 | 502 |
Vaxtaberandi skuldir |
257 | 217 | 262 | 178 |
Eiginfjárhlutfall | 21,1% | 25,1% | 20,9% | 32,3% |
Á síðustu mánuðum hefur verið unnið að endurfjármögnun Promens og er sú vinna á lokastigi. Sterkt eignarhald gefur félaginu aukna möguleika á að þróa starfsemina áfram á þeim mörkuðum sem félagið starfar á og telja aðilar að vænta megi góðrar arðsemi af eignarhlutum í Promens á komandi árum.
Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Frekari upplýsingar veita:
Horn fjárfestingarfélag hf.
Hermann Már Þórisson, hermann@horn.is, sími 410 2800
Promens hf.
Jakob Sigurðsson, jakob.sigurðsson@promens.com, sími 580 5550
Framtakssjóður Íslands slhf.
Pétur Þ. Óskarsson, petur@framtakssjodur.is, sími 571 7080 og GSM 863 6075
Upplýsingar fyrir ritstjórn:
Vefsvæði Promens: www.promens.com
Um Framtakssjóð Íslands slhf.
Framtakssjóður Íslands er sjóður í eigu sextán lífeyrissjóða, Landsbankans hf. og VÍS. Sjóðurinn sérhæfir sig í fjárfestingum og viðskiptaþróun fyrirtækja. Hlutverk hans er að taka þátt í og móta endurreisn íslensks atvinnulífs og ávaxta fjármuni í samræmi við fjárfestingastefnu sjóðsins. Stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands er Þorkell Sigurlaugsson og framkvæmdastjóri Finnbogi Jónsson.
Um Horn fjárfestingarfélag hf.
Horn fjárfestingarfélag er alhliða fjárfestingarfélag sem fjárfestir jafnt í skráðum sem óskráðum verðbréfum í flestum atvinnugreinum. Horn hefur undanfarin ár skilað góðri arðsemi af fjárfestingum sínum. Efnahagsreikningur félagsins er um 30 ma.kr. í dreifðu eignasafni og er meirihluti eigna Horns með tekjur í erlendri mynt. Mikil áhersla er lögð á vandaða greiningu á þeim félögum sem eru í eignasafni Horns á hverjum tíma. Tilkynnt hefur verið að félagið verði skráð í Kauphöll Íslands síðar á þessu ári.