Framtakssjóður Íslands slhf. (FSÍ), sem er eigandi alls hlutafjár í Húsasmiðjunni, hyggst selja fyrirtækið og hefur falið Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans að annast söluna. Óskað er eftir óskuldbindandi tilboðum fyrir 29. september. Auglýsing þessa efnis var birt í dagblöðum í morgun.
Ætlun FSÍ er að selja allan eignarhlut sinn en þó kemur til álita að sjóðurinn haldi eftir hlut og stofni til samstarfs við nýja hluthafa. Verkefnið er opið öllum áhugasömum fjárfestum sem standast hæfismat. Fjárfestar sem uppfylla skilyrði fá afhent kynningargögn um félagið, á grundvelli trúnaðaryfirlýsingar. Seljandi áskilur sér þó rétt til þess að takmarka aðgang, m.a. í þeim tilvikum þegar fyrir hendi eru lagalegar takmarkanir á því að aðili eignist ráðandi hlut í félaginu, til dæmis vegna samkeppnisreglna.
Húsasmiðjan var stofnuð árið 1956 og er eitt af stærstu þjónustu- og verslunarfyrirtækjum á Íslandi. Húsasmiðjan er leiðandi fyrirtæki í sölu á byggingavörum og starfrækir 16 verslanir undir eigin nafni um allt land. Að auki rekur fyrirtækið 9 verslanir undir merkjum Blómavals, Ískrafts og heildverslunar HGG.