-Vörumerkið Icelandic Seafood™ áfram í eigu Icelandic Group
Herdís Fjeldsted, stjórnarformaður Icelandic Group, Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðsins og Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðsins kynntu söluna á upplýsingafundi með fjölmiðlum.
Icelandic Group hefur selt starfsemi fyrirtækisins í Bandaríkjunum og tengda innkaupa- og framleiðslustarfsemi í Asíu. Kaupandi er kanadíska sjávarútvegsfyrirtækið High Liner Foods (High Liner). Heildarsöluverð (e. enterprise value) nemur um 230 milljónum USD sem jafngildir 26,9 milljörðum króna.
Icelandic Group mun áfram eiga vörumerkið Icelandic Seafood™ en kaupandi hefur rétt til notkunar á því í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó næstu 7 árin. Þá hefur High Liner gert langtímadreifingarsamning við Icelandic Group um kaup og dreifingu á íslenskum sjávarafurðum á þessum mörkuðum til þess að tryggja að markaðsaðgangur íslenskra framleiðenda verði sá sami og verið hefur.
Með sölunni nú er fiskréttarverksmiðja Icelandic USA í Newport News í Virginíufylki seld ásamt tengdri innkaupa- og framleiðslustarfsemi í Asíu. Á einu ári (12 mánuðir, september 2010 til september 2011) voru tekjur af þessari starfsemi alls 268 milljónir USD og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 24,8 milljónum USD. Kaupverðið er greitt með reiðufé og er að hluta nýtt til uppgreiðslu skulda sem hvíla á seldri starfsemi.
Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands: „Salan á rekstri Icelandic Group í Bandaríkjunum og tengdri starfsemi er lokahnykkurinn í því ferli og þeirri stefnumótun sem eigendur og stjórnendur Icelandic Group hafa unnið að undanfarin misseri. Sú stefnumótun hefur miðast við að styrkja fjárhagsstöðu félagsins og selja verksmiðjueiningar sem hafa takmarkað gildi fyrir íslenskan sjávarútveg til framtíðar. Með þessari sölu og sölu eigna í Þýskalandi og Frakklandi hefur Icelandic Group selt eignir fyrir samtals um 41 milljarð króna, þar af hefur um 21 milljarður verið greiddur með yfirtöku skulda sem hvíldu á þessari starfsemi. Þeir fjármunir sem eftir standa verða notaðir til að lækka skuldir enn frekar í félaginu og til að skila til baka til lífeyrissjóða og annarra eigenda Framtakssjóðsins hluta af upphaflegri fjárfestingu sjóðsins í Icelandic Group.“
Herdís Fjeldsted, stjórnarformaður Icelandic Group: „Salan á starfseminni í Bandaríkjunum er mjög mikilvægt skref fyrir Icelandic Group og í samræmi við þá stefnu sem nýir eigendur mörkuðu félaginu í ársbyrjun. Við höfum lagt áherslu á að straumlínulaga rekstur félagsins, lækka skuldir, auka arðsemi og draga úr áhættu í starfseminni. Þjónusta við íslenska framleiðendur er afar mikilvæg í starfsemi Icelandic Group og dreifingarsamningurinn við High Liner mun tryggja að framleiðendur hafi áfram aðgang að mörkuðum vestan hafs með sambærilegum hætti og áður. Ekki síður er mikilvægt að með samningnum er tryggt að sá fiskur sem seldur er undir vörumerkinu Icelandic Seafood™ verður áfram undir sömu gæðakröfum og undanfarin ár, sem er lykillinn að þeirri sterku stöðu sem vörumerkið hefur á markaðnum.“
Fyrr á árinu réð Icelandic Group Merrill Lynch International (“BofA Merrill Lynch”), dótturfyrirtæki Bank of America Corporation, sem fjárhagslegan ráðgjafa fyrirtækisins við mat á stefnu félagsins og þeim kostum sem félagið hefði í þeim efnum. Söluferlið á starfsemi Icelandic Group í Bandaríkjunum og tengdri innkaupa- og framleiðslustarfsemi, er hluti af því ferli. Viðskiptin eru með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda í Bandaríkjunum.
Frekari upplýsingar:
Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri FSÍ, sími 571-7080.
Herdís Fjeldsted, stjórnarformaður Icelandic Group, sími 571-7080.
Pétur Þ. Óskarsson, Framtakssjóði Íslands, farsími 863-6075.
Um Icelandic Group:
Icelandic Group er alþjóðlegt fyrirtæki með nærri sjö áratuga sögu í íslenskum sjávarútvegi. Félagið starfar bæði á smásölumarkaði og á markaði fyrir veitingahús, mötuneyti og stofnanir. Icelandic Group framleiðir og selur ferskt, kælt og fryst sjávarfang um heim allan en á undanförnum árum hefur vöruþróun verið efld á sviði flóknari og virðisaukandi fiskmáltíða fyrir smásölumarkað. Í lok árs 2011, eftir að eignir félagsins í Bandaríkjunum og tengd starfsemi hafa verið seldar, er gert ráð fyrir að félagið reki starfsemi á Íslandi, í Evrópu og Asíu og að áætluð heildarvelta Icelandic Group verði rúmlega 80 milljarðar króna.
Um High Liner Foods:
High Liner Foods Incorporated er leiðandi fyrirtæki í Norður Ameríku í vinnslu og markaðssetningu tilbúinna frosinna virðisaukandi sjávarrétta. Vörur frá High Liner eru seldar um öll Bandaríkin, Kanada og Mexíkó undir vörumerkjunum High Liner(®), Fisher Boy(®), Mirabel(®), Sea CuisineTM og Royal Sea(®) og fást þær í flestum helstu matvöruverslunum. Félagið selur einnig High Liner(®), FPI(®), Mirabel(®), og VikingTM vörur sínar til veitingahúsa og stofnana og útvegar jafnframt sjávarafurðir til smásala í Norður Ameríku, sem seldar eru undir eigin vörumerkjum smásalanna. High Liner Foods er kanadískt félag og skráð í kauphöllinni í Toronto undir auðkennunum HLF og HLF.A.
www.highlinerfoods.com