Framtakssjóður Íslands slhf. og Eignarhaldsfélag Landsbankans ehf. hafa lokið sölu á Promens til RPC Group plc. Allir fyrirvarar við tilboð RPC, sem greint var frá í fréttatilkynningu 27. nóvember 2014, hafa verið uppfylltir og hefur afhending og greiðsla farið fram. RPC kaupir allt útgefið hlutafé í Promens Group AS sem er dótturfélag Promens hf. og heldur utan um allan rekstur þess.
RPC er líkt og Promens alþjóðlegur framleiðandi plastaumbúða fyrir matvælaiðnað, neytenda- og iðnaðarmarkað.
Hermann M. Þórisson, stjórnarformaður Promens hf.:
„Við höfum fylgt eftir og stutt við þessa fjárfestingu í fjölda ára. Mikið og gott samstarf fjárfesta og starfmanna er lykilinn að þessum góða árangri sem nú hefur náðst með sölu félagsins til RPC. Ég vil þakka starfsfólki Promens fyrir ánægjulegt samstarf undanfarin ár. Ég er þess fullviss að sá sóknarkraftur sem hefur einkennt starfsemi Promens undanfarið muni áfram skila sér hjá nýjum eigendum.“
Herdís Dröfn Fjeldsted, varaformaður stjórnar Promens og framkvæmdastjóri FSÍ:
„Fjárfesting Framtakssjóðsins í Promens tókst ákaflega vel og salan nú skilar sjóðnum og eigendum hans góðri ávöxtun. Framtíð fyrirtækja Promens er vel tryggð með aðkomu öflugs félags sem gjörþekkir iðnaðinn. Sá árangur sem nú er staðfestur með sölu er að þakka samstilltum hópi eigenda og stjórnenda sem hafa unnið ötullega að því að efla félagið undanfarin ár.“
Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans og LOGOS lögmannsþjónusta voru ráðgjafar seljenda.
Frekari upplýsingar um Promens: www.promens.com
Frekari upplýsingar um RPC: www.rpc-group.com
Nánari upplýsingar veita
Hermann M. Þórisson, s. 410 2500
Herdís Dröfn Fjeldsted, s. 571 7080