Opna hluta almenns útboðs með hlutabréf Fjarskipta hf. (Vodafone) lauk 6. desember en lokaða hluta útboðsins lauk þann 3. desember 2012. Í opna hluta útboðsins, sem var opinn almenningi, voru 10% hlutafjár félagsins í boði. Íslandsbanki var ráðgjafi Vodafone og seljandans Framtakssjóðs Íslands.
Samtals bárust áskriftir fyrir 1.652 milljónir króna í þennan hluta eða sem nemur um 1,6 faldri umframeftirspurn miðað við þann 10% hlut sem boðinn var til sölu af Framtakssjóði Íslands. Útboðsgengið var 31,5 krónur á hlut. Í lokaða hluta útboðsins mánudaginn 3. desember síðastliðinn bárust samtals tilboð fyrir 9.969 milljónir króna frá fjárfestum. Í þeim hluta voru í boði 40% hlutafjár í félaginu sem voru í eigu Framtakssjóðs Íslands. Samtals bárust því áskriftir fyrir 11.621 milljónir króna eða sem nemur um 2,2 faldri umframeftirspurn miðað við þann 50% hlut sem boðinn var til sölu.
Í ljósi umframeftirspurnar mun Framtakssjóður Íslands auka við framboðið og selja til viðbótar sem nemur 10% hlutafjár í Vodafone. Samtals munu því 60% hlutur í Vodafone skipta um hendur í tengslum við töku félagsins til viðskipta á Aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland hf. Söluandvirði hlutanna er 6.344 milljónir króna.
Framtakssjóður Íslands á eftir viðskiptin 19,7% hlut í félaginu. Sjóðurinn kom að félaginu í upphafi árs 2010 og hefur gegnt virku eigandahlutverki í félaginu frá þeim tíma. Á tímabilinu var ráðist í umfangsmikla endurskipulagningu á félaginu, bæði hvað varðar rekstur og fjármögnun sem lauk núna á haustmánuðum. Meginmarkmið Framtakssjóðsins voru að félagið uppfyllti skilyrði Kauphallarinnar um dreifingu hlutafjár, þ.m.t. um eignarhald almennra fjárfesta og fjölda hluthafa. Niðurstaða útboðsins er í takt við þau markmið.
Þór Hauksson, stjórnarformaður Vodafone og fjárfestingarstjóri hjá Framtakssjóði Íslands:
„Það er ánægjulegt að sjá þennan mikla áhuga meðal fjárfesta á Fjarskiptum hf. og að markmið útboðsins hafi náðst. Nýir hluthafar eru komnir að félaginu og félagið verður tekið til viðskipta í kjölfarið. Fyrir hönd bæði stjórnar Vodafone og Framtakssjóðsins vil ég þakka starfsmönnum félagsins fyrir árangursríkt starf. Um leið býð ég nýja hluthafa velkomna að félaginu. Vodafone mun í framtíðinni leggja ríka áherslu á góð samskipti við hluthafa, greiningaraðila, framtíðarfjárfesta og NASDAQ OMX“