Mikil umframeftirspurn var eftir hlutabréfum N1 hf. í almennu útboði sem lauk 9. desember síðastliðinn og bárust alls um 7.700 áskriftir. Útboðið var tvískipt og verða 18% hluta í félaginu seld á 18,01 krónu á hlut í tilboðsbók B en 10% seld á 15,3 krónur á hlut í tilboðsbók A. Heildarstærð útboðsins nemur 280 milljónum hluta og er heildarsöluandvirði þeirra 4.770 milljónir króna.
Framtakssjóður Íslands seldi 15% hlut í útboðinu, en áður hafði sjóðurinn, í samræmi við ákvæði nauðasamninga N1, selt 10% hlut til forkaupsrétthafa. Alls hefur FSÍ því selt 25% hlut í félaginu. Meginmarkmið Framtakssjóðsins voru að félagið uppfyllti skilyrði Kauphallarinnar um dreifingu hlutafjár, þ.m.t. um eignarhald almennra fjárfesta og fjölda hluthafa. Niðurstaða útboðsins er í samræmi við þau markmið.