Stjórn Icelandic Group hefur ákveðið að hefja söluferli á dótturfélagi félagsins, Ný-Fiskur, í Sandgerði. Fyrirhuguð sala er liður í stefnu Framtakssjóðs Íslands, sem á Icelandic Group að fullu, að einfalda rekstur félagsins. Ný-Fiskur er eitt fjögurra dótturfélaga Icelandic Group en fyrr í þessum mánuði var tilkynnt um undirritun samnings vegna sölu á Icelandic Ibérica á Spáni til framleiðenda á Íslandi.
Ný-Fiskur sérhæfir sig í vinnslu og sölu á ferskum sjávarafurðum. Félagið nýtir um 6.000 tonn af hráefni árlega og eru tekjur fyrir árið 2016 áætlaðar um 3.000 m.kr. Stór hluti afurða er fluttur með flugi til viðskiptavina í Belgíu og annarra Evrópulanda. Ný-Fiskur rekur vel útbúna vinnslu að Hafnargötu 1 í Sandgerði. Félagið gerir út línubátinn Von GK-113 í gegnum dótturfélag sitt, Útgerðarfélag Sandgerðis, sem er með um 800 þorskígildistonn af aflaheimildum í krókaaflamarkskerfinu. Hjá félaginu starfa um 70 manns og framkvæmdastjóri þess er Þorsteinn Magnússon.
Áhugasömum aðilum er bent á að hafa samband við Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka í gegnum netfangið nyfiskur@islandsbanki.is eða í síma 440-4011.
Um Icelandic Group:
- Icelandic Group er eignarhaldsfélag sem heldur utan um dótturfyrirtæki félagsins í Bretlandi, Belgíu, á Spáni og Íslandi sem öll sérhæfa sig í framleiðslu og sölu á sjávarfangi. Samanlögð velta Icelandic Group nam um €500 milljónum árið 2015.
- Icelandic Group er einnig móðurfélag ITH (Icelandic Trademark Holding) sem er eigandi vörumerkjanna ´Icelandic´ og ´Icelandic Seafood´ og heldur utan um alla markaðssetningu vörumerkjanna og þjónustu gagnvart leyfishöfum og öðrum framleiðendum á Íslandi.
- Í Bandaríkjunum er Icelandic Group í samstarfi við Highliner Foods sem er leyfishafi og selur vörur undir vörumerkinu ´Icelandic Seafood´ inn á hótel og veitingahúsamarkað.
- Icelandic Group er í 100% eigu Framtakssjóðs Íslands (FSÍ). FSÍ er fjárfestingarsjóður í eigu sextán lífeyrissjóða, Landsbankans og VÍS.