Stjórn Advania hefur boðað til hluthafafundar þar sem tekin verður fyrir tillaga stjórnar að auka hlutafé félagsins um 2.000 milljónir króna að markaðsvirði. Hlutafjáraukningin verður nýtt til þess að greiða niður skuldir félagsins við lánastofnanir og þar með auka eiginfjárhlutfall þess úr tæpum 10% í 22,5%. Framtakssjóður Íslands, sem er eigandi 71,26 prósenta hlutar í félaginu, hefur ákveðið að framselja forkaupsrétt sinn að nýju hlutafé til sænska félagsins AdvInvest AB. Auk þess hefur FSÍ skuldbundið sig til að selja AdvInvest hluta af núverandi eign sinni til að tryggja þeim 51% eignarhlut í félaginu. AdvInvest býður öðrum hluthöfum félagsins að ganga inn í viðskiptin á sömu kjörum og FSÍ.
Hversu mikið FSÍ selur mun ráðast af því hvort eða hversu mikið aðrir hluthafa falla frá kaupum í hlutafjáraukningunni.
AdvInvest er í eigu sænskra fjárfesta sem hafa langa og farsæla reynslu í upplýsingatækni og er leitt af Thomas Ivarson sem hefur áratugareynslu af rekstri tæknifyrirtækja í Norður Evrópu. Markmið fjárfestanna er að efla félagið enn frekar, nýta sterkan þekkingargrunn félagsins á Íslandi og nýta tengsl og þekkingu fjárfestanna til frekari vaxtar á Norðurlöndunum.
Um nokkurt skeið hefur legið fyrir að auka þyrfti hlutafé Advania og hækka eigið fé félagsins. Nýtt hlutafé mun styrkja rekstur félagsins til langframa og veita því styrk til að sækja fram erlendis, einkum á Norðurlöndum. Erlend sókn félagsins byggir m.a. á þekkingu og reynslu innlends starfsfólks félagsins. Með innkomu fjárfesta með langa reynslu af rekstri upplýsingatæknifyrirtækja á Norðurlöndum styrkir Advania enn frekar möguleika sína til verða eitt af leiðandi fyrirtækjum í upplýsingatækni á Norðurlöndunum. Sameiginlegt markmið stærstu eigenda félagsins er að skrá félagið á markað bæði í Kauphöll Íslands og í Svíþjóð.
Beringer Finance í Stokkhólmi og Reykjavík var ráðgjafi kaupendanna í viðskiptunum