Tilkynning frá Framtakssjóði Íslands
Framtakssjóður Íslands slhf. (FSÍ) hefur falið Fyrirtækjaráðgjöf Straums fjárfestingabanka hf. að annast formlegt söluferli vegna fyrirhugaðrar sölu á öllu hlutafé Plastprents ehf. sem er í 100% eigu FSÍ.
Söluferlið er opið öllum áhugasömum fjárfestum sem geta sýnt fram á fjárfestingagetu umfram 250 milljónir króna og búa yfir fullnægjandi þekkingu og reynslu eða uppfylla skilyrði þess að geta talist fagfjárfestar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Seljendur áskilja sér þó rétt til þess að takmarka aðgang að söluferlinu, m.a. ef lagalegar takmarkanir eru á því að fjárfestir eignist ráðandi hlut í félaginu svo sem vegna samkeppnisreglna.
Óskað er eftir skuldbindandi tilboðum með sérstaklega tilgreindum fyrirvörum fyrir kl. 12:00, mánudaginn 21. maí 2012, byggt á þeim gögnum sem afhent verða. Seljandi mun velja hagstæðustu tilboðin að hans mati og verður fjárfestum sem skiluðu inn þeim tilboðum boðin þátttaka í öðru stigi söluferlisins. Áhugasömum fjárfestum er bent á að nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu Straums, www.straumur.com. Einnig er hægt að hafa samband við Fyrirtækjaráðgjöf Straums fjárfestingabanka hf. í síma 585 6600 eða með því að senda tölvupóst á netfangið plastprent@straumur.com.
Um Plastprent
Plastprent ehf. var stofnað árið 1957 og hefur frá þeim tíma verið brautryðjandi í framleiðslu áprentaðra plastumbúða. Í dag starfa um 75 manns hjá félaginu og felur starfsemi þess í sér filmugerð, klisjugerð, prentun, lamineringu, pokagerð, endurvinnslu hráefnis og innflutning. Höfuðstöðvar félagsins eru í dag í 6.200 fermetra húsnæði við Fossháls í Reykjavík, en auk þess er félagið með starfsstöð á Akureyri. Plastprent ehf. fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu á árunum 2010 og 2011 sem er nú að fullu lokið.
Frekari upplýsingar veitir Pétur Þ. Óskarsson, Framtakssjóði Íslands, s. 863-6075.