Stjórn Icelandic Group hf. hefur ákveðið að hefja opið söluferli á dótturfélagi sínu, Icelandic Iberica á Spáni. Salan er liður í þeirri stefnu Framtakssjóðs Íslands, sem á Icelandic Group að fullu, að einfalda og endurskipuleggja rekstur Icelandic Group.
Icelandic Ibérica S.A., eitt fjögurra dótturfélaga Icelandic Group, er einn helsti sölu- og dreifingaraðili á léttsöltuðum þorski frá Íslandi ásamt ýmsu öðru frosnu sjávarfangi. Félagið selur sjávarafurðir til meira en 4.000 viðskiptavina í fimm löndum í Suður-Evrópu. Tekjur Icelandic Ibérica á síðasta ári námu ríflega 100 milljónum evra og starfsmenn eru um 140 talsins.
Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hefur verið falið að sjá um opið söluferli alls hlutafjár í Icelandic Ibérica S.A.
Vörumerki félagsins, Icelandic Seafood, fylgir ekki með í kaupunum á Icelandic Iberica. Icelandic Group mun áfram eiga vörumerkið Icelandic Seafood™ en kaupandi hefur rétt til notkunar á því í Evrópu (helstu markaðssvæðum Icelandic Iberica).
Þá hefur verið tekin ákvörðun um að einfalda starfsemi Icelandic Group á Íslandi og færa önnur dótturfélög Icelandic Group beint undir stjórn Framtakssjóðs Íslands. Um er að ræða þrjú framleiðslufyrirtæki á Íslandi, Bretlandi og í Belgíu. Hjá Icelandic Group starfa á heimsvísu um 1.600 manns, þar af um það bil 20 starfsmenn í höfuðstöðvum félagsins.
Samhliða þessum breytingum eru störf forstjóra og aðstoðarforstjóra Icelandic Group lögð niður en þeir munu báðir áfram sinna ráðgjafaverkefnum fyrir félagið næstu mánuði.
Árni Geir Pálsson, fráfarandi forstjóri Icelandic Group:
„Þegar ég tók við félaginu fyrir 18 mánuðum síðan setti ég mér og samhentu stjórnendateymi það markmið að allar rekstrareiningar félagsins yrðu arðbærar innan árs. Þetta gekk eftir, við jukum veltu og snerum tapi yfir í hagnað á síðasta rekstrarári og það sem af er þessu ári er rekstur félagsins arðbær og í samræmi við áætlanir. Verkefni mínu er því lokið og ég kveð sáttur.“
Herdís Dröfn Fjeldsted, stjórnarformaður Icelandic Group og framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands:
„Icelandic Group hefur gengið í gegnum miklar breytingar á síðustu árum og góður árangur hefur náðst í að endurskipuleggja félagið og auka verðmæti þess. Þar eiga Árni Geir Pálsson, fráfarandi forstjóri, Jóhann Gunnar Jóhannsson aðstoðarforstjóri og fjármálstjóri ásamt stjórnendateymi félagsins stóran þátt að máli. Árni Geir kom að félaginu á krefjandi tímum og skilar nú af sér góðu búi. Frá því að Framtakssjóður Íslands eignaðist Icelandic Group hefur verið unnið markvisst að því að auka verðmæti félagsins og tryggja hagsmuni íslensks sjávarútvegs til lengri tíma. Sala Icelandic Ibérica, sem og endurskipulagning Icelandic Group, er rökrétt framhald þeirrar vinnu.“
Frekari upplýsingar:
Hafliði Helgason, Framtakssjóði Íslands, sími 864-6350.