Framtakssjóður Íslands hefur selt tæp 20 prósent í Fjarskiptum hf. (Vodafone). Eftir söluna á FSÍ ekkert hlutafé í félaginu. Í framhaldi af því hefur Þór Hauksson, stjórnarformaður félagsins og fjárfestingarstjóri hjá FSÍ ákveðið að gefa ekki kost á sér í stjórn félagsins á næsta aðalfundi.
Framtakssjóður Íslands eignaðist meirihluta í félaginu í upphafi árs 2010 við kaup sjóðsins á eignarhaldsfélaginu Vestia. Frá þeim tíma til sölunnar nú hefur FSÍ komið að stjórn félagsins með virkum hætti. Vodafone var við kaup FSÍ hluti samstæðunnar Teymis, en FSÍ tók þátt í uppskiptingu samstæðunnar og í framhaldi af því var ráðist í umfangsmikla endurskipulagningu á félaginu, bæði hvað varðar rekstur og fjármögnun. Þeirri endurskipulagningu lauk með hlutafjáraukningu haustið 2012 sem var liður í undirbúningi að skráningu félagsins. Fjarskipti voru skráð á markað í Kauphöll Íslands í desember 2012 og seldi FSÍ um 60 prósenta hlut í félaginu samhliða skráningunni, en hélt eftir tæplega 20 prósenta hlut sem nú hefur verið seldur.
Meginmarkmið Framtakssjóðsins með skráningunni voru að félagið uppfyllti skilyrði Kauphallarinnar um dreifingu hlutafjár, þ.m.t. um eignarhald almennra fjárfesta og fjölda hluthafa. Niðurstaða útboðsins var í takt við þau markmið. Fjarskipti eru fyrsta óskráða eign Framtakssjóðsins sem skráð hefur verið á markað og í framhaldinu seld að fullu.